Fréttir

Styttist í fjögur þúsundasta íbúann og nýtt hverfi rís
Forráðamenn og starfsmenn Suðurnesjabæjar með fulltrúum Ellerts Skúlasonar, jarðvinnuverktaka eftir fyrstu skóflustunguna. VF-myndir/pket.
Sunnudagur 9. maí 2021 kl. 07:03

Styttist í fjögur þúsundasta íbúann og nýtt hverfi rís

Mikill uppgangur í Suðurnesjabæ og ásókn í lóðir. Nýtt hverfi í Sandgerði, Skerjahverfi, að rísa.

„Það er mikill uppgangur í Suðurnesjabæ um þessar mundir og gríðarleg eftirspurn eftir lóðum fyrir íbúðahúsnæði. Það er alltaf ánægjulegt að hefja framkvæmdir við nýtt hverfi en við erum líka að vinna í skipulagsvinnu á öðrum stöðum líka,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri Suðurnesjabæjar en þrjú ár eru síðan nýtt sameinað bæjarfélag Sandgerðis og Garðs varð til. Stutt er í að íbúafjöldi fari yfir fjögur þúsund.

Bæjarstjórinn settist upp í stóra gröfu frá Ellerti Skúlasyni ehf. sem mun sjá um jarðvinnu í Skerjahverfi og tók fyrstu skóflustunguna. Magnús lumar á reynslu frá yngri árum varðandi vinnu á alvöru tækjum og sýndi takta við gröftinn. Hann segir að í nýja hverfinu sé gert ráð fyrir fjölbreyttum íbúðum.

„Það er gert ráð fyrir 136 íbúðum, í alls konar stærðum og gerðum, fjölbýli, einbýli, parhús og raðhús. Hér verður myndarleg byggð sem mun byggjast upp. Við vinnum þetta áfangaskipt, fyrri áfanginn sem við förum í núna eru 64 íbúðir og við höfum þegar fengið töluvert af fyrirspurnum um það. Ég geri ráð fyrir að það verði mikið sótt í þessar lóðir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

– Ertu búinn að sjá fyrir þér hvaða íbúðafjölda þið verðið komin í eftir ár eða tvö?

„Núna er íbúafjöldinn rétt tæplega 3.700 og ég sé fyrir mér að það líði ekki langt þar til hann fer yfir 4.000 miðað við þá þróun sem er í gangi núna. Það eru um það bil 64 íbúðir í byggingu núna í Suðurnesjabæ og það er búið að úthluta lóðum þar sem framkvæmdir eru ekki hafnar fyrir um 50 íbúðir, svo það er mikið að gerast.“

– Er þetta hverfi fyrir verktaka eða geta einstaklingar sótt um lóðir líka?

„Þetta er opið fyrir alla. Reynslan undanfarið og eins og staðan er í dag að þá að þetta eru þetta mest verktakar sem eru að spyrjast fyrir og sækja um lóðir en að sjálfsögðu einstaklingar líka. Í Skerjahverfi er gert ráð fyrir leikskóla og þaðan er stutt yfir í grunnskólann og íþróttamiðstöðina. Staðsetningin er því góð.“

– Hvernig standið þið í sveitarfélaginu gagnvart þjónustu eins og leikskólum og slíku?

„Við erum núna að undirbúa framkvæmdir sem hefjast á þessu ári við byggingu á nýjum leikskóla hér í Sandgerði og erum að reyna að mæta þeirri þörf sem þegar er til staðar, og mun verða auðvitað, með fjölgun íbúa. Síðan er verið að stækka grunnskólann í Garði, Gerðaskóla, hann var orðinn sprunginn og þörf á stækkun. Þetta er allt í gangi, við erum að reyna að byggja upp innviðina í takti við fjölgun íbúa.

– Hvað með nýtt hverfi í Garðinum?

„Það er hverfi í Garðinum sem var skipulagt fyrir hrun og við breyttum deiliskipulagi þess að hluta til fyrir einhverjum fjórum árum og nú er það bara að verða fullbyggt, sá hluti, og við erum byrjuð að vinna í breytingum á deiliskipulagi seinni hluta þess hverfis. Þannig að ég geri ráð fyrir því, kannski ekki á þessu ári, það fer eftir hvernig skipulagsvinnan gengur en þar munum við bjóða upp á lóðir líka.

– Þannig að þið hafið fundið fyrir miklum áhuga fólks að flytja í Suðurnesjabæ?

„Já, það hefur mikið verið sótt af fólki, mér sýnist nú mest af Höfuðborgarsvæðinu en auðvitað heimafólki líka, en þetta er bara kjörið fyrir alla að búa hér, stutt í allar áttir og allt sem fólk þarf á að halda.“

– Nú eru örfá ár síðan Garður og Sandgerði sameinuðust í Suðurnesjabæ og þú varst áður bæjarstjóri í Garðinum og ert nú bæjarstjóri Suðurnesjabæjar, hvernig finnst þér þetta hafa gengið?

„Þetta hefur gengið mjög vel. Það eru nú komin rétt tæp þrjú ár síðan nýja sveitarfélagið varð til og enginn stór vandamál þannig lagað komið upp, svo ég er bara mjög ánægður með hvernig þetta hefur farið fram.“

– Og bæjarbúar ánægðir, sama hvoru megin þeir búa?

„Já, ég heyri ekki annað, en auðvitað þurfa að vera tilfinningar líka að vera í þessu en það er ekkert sem truflar mikið. Garðmenn eru Garðmenn og Sandgerðingar eru Sandgerðingar og þannig á þetta bara að vera. En svo erum við bara sameiginlega í einu sveitarfélagi og vinnum á framgangi og hag þess og allri þeirri þjónustu sem fólk þarf á að halda. Það gengur vel.

– Er eitthvað skipulag fyrirhugað á milli sveitarfélaganna hvað varðar íbúabyggð?

„Við erum núna að vinna nýtt aðalskipulag fyrir sveitarfélagið, við erum ekki komnir mjög langt í því verkefni en það er auðvitað eitt af því sem verið er að skoða og mun verða partur af þessu verkefni, hvernig á að tengja þessar byggðir saman, þetta er nú ekki langt á milli, um fjórir kílómetrar.

– Og svona framtíðarmúsík hvað varðar stærri þætti í sveitarfélaginu hvort sem það eru íþróttahús eða eitthvað slíkt, er hún í þá veru að það verði byggt á þessu svæði milli Garðs og Sandgerðis?

„Já, það eru uppi hugmyndir um það, en líka hugmyndir um annað og þetta er bara það sem fylgir því að vinna aðalskipulag, að taka þessar hugmyndir og fara í gegnum þetta allt og komast síðan að niðurstöðu. Ég þori ekkert að segja til um það núna hvernig akkúrat það verður, það bara kemur í ljós.“ 

– Hvernig var Covid árið í Suðurnesjabæ hvað reksturinn varðar?

„Það var nú hjá okkur eins og bara hjá öllum sveitarfélögum meira og minna. Auðvitað finnum við fyrir því og fundum fyrir því á síðasta ári að tekjur sveitarfélagsins urðu mun minni en áætlanir stóðu til um. Það fellur líka til kostnaður að ýmsu leyti, þannig að afkoma rekstrarlega er lakari en áætlanir stóðu til en það eru bara eðlilegar skýringar á því. En heilt yfir verð ég að hrósa starfsfólki sveitarfélagsins og íbúum fyrir það hvernig hefur verið tekist á við þetta Covid ástand. Það voru ýmsar flækjur sem komu upp og alls konar aðstæður og allt var þetta leyst mjög vel verð ég að segja, og ég er bara þakklátur fyrir það, hvernig það hefur gengið,“

Meira afl eftir sameiningu

Nú er oft talað um frekari sameiningu sveitarfélaga og þetta var vissulega skref í rétta átt þegar Sandgerði og Garður sameinuðust. Hvernig finnst þér munurinn vera, rekstrarlega séð, hafandi verið bæjarstjóri í Garði áður og nú í Suðurnesjabæ. Finnur þú hagræðinguna detta inn á borð hjá þér?

„Algjörlega, það sem ég finn mest fyrir er hvað þetta sveitarfélag hefur miklu meira afl heldur en hin sveitarfélögin höfðu áður, stærðin skiptir vissulega máli í því, það er meiri burður til fjárfestinga í sameinuðu sveitarfélagi heldur en áður og það er hægt að nefna ýmislegt. Hvað reksturinn varðar þá var í raun aldrei markmiðið að spara þannig lagað séð, heldur að nýta fjármagnið betur til aukinnar þjónustu við íbúana og það hefur gengið vel og er í sínum farvegi. En svona sameining klárast ekkert á einum, tveimur árum, þetta er þróun og það er ýmislegt sem á eftir að þróast áfram á næstu árum.“

Heldur þú að hugur íbúa Suðurnesjabæjar sé með frekari sameiningu við til dæmis Reykjanesbæ eða fleiri sveitarfélög á Suðurnesjum?

„Ég bara veit það ekki, ég ætla ekki að geta í eyðurnar með það. Auðvitað getur maður ekki útilokað það og mér finnst það frekar líklegt en hitt að einhvern tímann í framtíðinni verði frekari sameiningar á svæðinu. Ég spái því nú bara hér með að það verði, en hvenær og hvernig, það verður bara að koma í ljós.“

Gert ráð fyrir 136 íbúðum í Skerjahverfi

Framkvæmdir eru hafnar við uppbyggingu á nýju íbúðahverfi, Skerjahverfi í Sandgerði í Suðurnesjabæ. Magnús Stefánsson, bæjarstjóri, tók fyrstu skóflustungu síðasta föstudag og hóf með því framkvæmdina. Eftir nýlegt útboð á verkinu hefur Suðurnesjabær samið við Ellert Skúlason ehf. um framkvæmdina. Fyrr í vor lauk framkvæmdum við tengingu á fráveitu hverfisins við fráveitukerfi sveitarfélagsins og annaðist Tryggvi Einarsson, jarðverktaki, það verkefni.

Í deiliskipulagi Skerjahverfis er gert ráð fyrir blandaðri byggð einbýla, rað-, par- og fjölbýlishúsa. Þar er því gert ráð fyrir uppbyggingu á íbúðum af ýmsum stærðum. Í deiliskipulagi hverfisins er gert ráð fyrir alls 136 íbúðum, þar af 33 íbúðum í fjölbýli og 103 íbúðum í sérbýli. Sérbýlisíbúðir skiptast í 35 íbúðir í raðhúsum, 27 íbúðir í keðjuhúsum, 18 íbúðir í parhúsum og 23 íbúðir í einbýlishúsum.

Í fyrsta áfanga í uppbyggingu Skerjahverfis er gert ráð fyrir alls 64 íbúðum, þar af 33 íbúðum í fjölbýli, níu íbúðum í keðjuhúsum og 23 íbúðum í raðhúsum. Stefnt er að því að fyrstu lóðum verði úthlutað til bygginga síðsumars eða í byrjun hausts 2021. Þegar hafa komið fyrirspurnir um nokkrar íbúðalóðir í hverfinu, þannig að gera má ráð fyrir að töluverð eftirspurn verði eftir íbúðalóðum í þessu nýja íbúðahverfi. Þess má geta að gert er ráð fyrir lóð til uppbyggingar á fjölbýlishúsi á vegum leigufélagsins Bjargs.

Mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis í Suðurnesjabæ

Mikil eftirspurn er og hefur verið eftir íbúðalóðum í Suðurnesjabæ, bæði í Garði og Sandgerði, og er nú svo komið að framboð af lausum lóðum er orðið takmarkað. Nú eru alls 64 íbúðir í byggingu í Suðurnesjabæ, þar af 27 í Sandgerði og 37 í Garði. Þar að auki hefur verið úthlutað lóðum fyrir alls 53 íbúðir í Suðurnesjabæ en uppbygging þeirra er ekki hafin. Þar af eru alls lóðir fyrir 41 íbúð í Garði og tólf íbúðir í Sandgerði. Sveitarfélagið vinnur að því að auka framboð af lóðum fyrir íbúðir, nýtt Skerjahverfi er liður í því verkefni og auk þess stendur yfir skipulagsvinna til að auka lóðaframboð enn frekar til næstu missera og ára.

Magnús bæjarstjóri tók fyrstu skóflustunguna að nýja hverfinu.