Fréttir

Nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Betsý Ásta Stefánsdóttir, formaður Ungmennaráðs Reykjanesbæjar og Guðrún Eyjólfsdóttir, formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum tóku fyrstu skóflustunguna. VF-mynd/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 13. maí 2022 kl. 07:33

Nýtt 60 rýma hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ

Nýtt hjúkrunarheimili leysir af Hlévang, eldra heimili í Keflavík. Staðsetning á Nesvöllum tryggir góða samnýtingu og hagræðingu. 40 manns eru á biðlista eftir hjúkrunarrými.

Fyrsta skóflustunga var tekin að nýju 60 rýma hjúkrunarheimili við Nesvelli í Reykjanesbæ síðasta föstudag að viðstöddum fulltrúum allra sveitarfélaga á Suðurnesjum og heilbrigðisráðherra sem mundaði skófluna með fulltrúum yngri og eldri kynslóðarinnar. 

Fyrirhuguð bygging verður 3900 m2 að stærð á þremur hæðum og mun tengjast núverandi hjúkrunarheimili um neðanjarðar tengigang og utandyra tengileið á öllum hæðum á austur hlið. Á hverri hæð byggingarinnar verða tvær samtengdar tíu íbúa hjúkrunareiningar sem hafa samliggjandi setustofur sem val er um að hafa opið eða lokað á milli. Þetta gefur tækifæri til mikillar og góðrar samnýtingar. Skipulag verður eins á öllum hæðum fyrir utan í „miðkjarnum“ sem er staðsettur á milli deilda norðan til í byggingunni. Þar verður skrifstofum forstöðukonu og deildarstjóra, fjölnotarými, vaktherbergi, samtalsherbergi og sjúkra- og íðjuþjálfun deilt upp á milli hæða. Ef allt gengur að óskum munu framkvæmdir geta hafist í nóvember á þessu ári.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sagði í ávarpi að foorsaga þessa verkefnis væri orðin nokkuð löng en hófst með undirritun samkomulags  hans og Svandísar Svavarsdóttur, þá heilbrigðisráðherra, í lok febrúar 2020. 

„Síðan þá hefur undirbúningur tekið lengri tíma en við ætluðum, af ýmsum ástæðum sem vera ekki raktar hér, en nú sjáum við fyrir endann á þeim töfum og stefnum að því að hefja framkvæmdir síðar í sumar. Hjúkrunarheimilið á Nesvöllum opnaði 14. mars 2014 og leysti þá af hólmi Garðvang en hið nýja hjúkrunarheimili verður 60 rými og mun leysa Hlévang af hólmi. Færast 30 hjúkrunarrými þaðan og svo fáum við 30 ný. Hlévangur uppfyllir ekki lengur nútíma kröfur og með þessu nýja hjúkrunarheimili verður þjónusta og aðstaða allra heimilismanna sambærileg. Nú eru 40 manns á biðlista eftir hjúkrunarrými á Suðurnesjum. Kostnaður við framkvæmdina skiptist þannig að ríkið greiðir 85% og Reykjanesbær 15%. Góð samvinna hefur verið á milli Hrafnistu og Reykjanesbæjar á öllum sviðum.Leitast verður við að hámarka gæði og þjónustu fyrir íbúa við hönnun ný heimilis og gera starfsaðstæður fyrir starfsfólk eins góðar og hægt er. Þar sem Nesvellir og Hlévangur eru í dag að samnýta stoðdeildir eins og sjúkra- og iðjuþjálfun og ýmsa stjórnunarþætti þá styttast vegalengdir og boðleiðir sem auka skilvirkni í starfseminni og eykur alla yfirsýn og eftirfylgni með tilheyrandi hagræðingu fyrir alla aðila. Varðandi kröfur nútímans þá er vel til þess horft á nýja heimilinu t.d. varðandi nýja og betri tækni í búnaði á baðherbergjum og áhersla á góðan aðbúnað jafnt fyrir íbúa, starfsmenn og aðstandendur. Horft er til þess að stytta vegalengdir á milli deilda svo hægt sé að vinna vel saman á hverri hæð. Einnig að sameiginleg rými og borðstofur liggi saman en það gerir mögulegt  að halda viðburði án þess að þurfa að fara með borðbúnað og húsgögn á milli svæða. Málaflokkurinn er bæjaryfirvöldum mikilvægur og mikill vilji til að byggja upp sem besta þjónustu fyrir okkar elstu borgara,“ sagði Kjartan Már.

Sveitarstjórnarfólk, þingmenn og frambjóðendur fjölmenntu á athöfnina.