Fréttir

Leikskólinn Gefnarborg 50 ára
Sunnudagur 27. júní 2021 kl. 08:01

Leikskólinn Gefnarborg 50 ára

-Er í áhugaverðu Erasmus+ verkefni með erlendum skólum.

Leikskólinn Gefnarborg fagnaði 50 ára afmæli 10. júní síðastliðinn. Leikskólinn var byggður og stofnaður af Kvenfélaginu Gefn árið 1971. Kvenfélagið rak leikskólann til áramóta 1985–1986 en þá keypti Gerðahreppur hann og rak til 1. ágúst 1986. Eftir það var reksturinn boðinn út og hefur Hafrún Ólöf Víglundsdóttir rekið leikskólann síðan þá.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar frá upphafi leikskólans bæði hvað varðar áherslur og starfsaðstæður. Hvert tímabil mótast af þekkingu og tíðaranda og síðast en ekki síst þeim mannauði sem leikskólinn býr yfir hverju sinni. Ávallt er markmiðið að bæta ofan á þá þekkingu sem fyrir er og gera gott starf betra.

Tvisvar hefur verið byggt við núverandi húsnæði og í dag eru fjórar deildir starfræktar í skólanum. Árið 2019, þegar nýjasta viðbyggingin var gerð, skapaðist grundvöllur fyrir þeim áherslum sem móta að mestu þá faglegu umgjörð sem einkennir dagleg störf í leikskólanum í dag.

Erlendir samstarfsskólar

Skólaárið 2020–2021 hóf leikskólinn Gefnarborg að vinna Erasmus+  samstarfsverkefni milli skóla sem á ensku heitir Inclusion through sensory integration. Samstarfsskólarnir koma frá Króatíu, Grikklandi, Rúmeníu og Svíþjóð. Markmið verkefnisins er að stuðla að og efla félagslega þátttöku barna með skynreiðu að leiðarljósi í eftirfarandi áhersluþáttum; læsi, útinámi og sköpun. Mikilvægur þáttur í ferlinu er að skapa umhverfi sem er örvandi og hvetjandi til skynjunar út frá þessum þáttum.

Skynreiða

Af hverju er leikskólinn Gefnarborg að leggja áherslu á skynreiðu?

Skynreiða (e. Sensory integration) á sér stað þegar heilinn sameinar skilaboð frá fleiri en einu skynsvæði, þannig að úr verður skiljanleg heild. Dæmi: Þegar við hugsum um sítrónu tengjum við strax við reynslu okkar. Í huga okkar finnum við bragð, lykt og áferð sítrónunnar og við sjáum einnig fyrir okkur lit og form hennar. 

Skynreiða þroskast samhliða eðlilegum þroska hjá börnum, þegar börn byrja að velta sér, skríða, ganga og leika. Hver einasta mannvera uppgötvar heiminn í gegnum skynfæri. Í Gefnarborg leitum við leiða til að viðhalda þessari eðlislægu leið barna til að læra og þroskast.

Flestir þekkja skilningarvitin fimm; heyrn, sjón, lykt, snerting og bragð. Við leggjum einnig áherslu á jafnvægisskyn, líkamstöðuskyn og líffæraskyn.

Verkefninu er skipt upp í þrjú tímabil með mismunandi áherslum, skólaárið 2020–2021 hefur verið lögð áhersla á læsistengda skynjun. Þar höfum við unnið með barnabækur með áherslu á alla læsisþætti og á sama tíma eflt skynreiðu barna.

Í endurmati starfsfólks kemur fram að það hafi öðlast aukinn skilning á hvernig hægt er að vinna með börnum á fjölbreyttan hátt. Það hafi lært inn á skynsviðin og mikilvægi þeirra. Starfsfólk er betur meðvitað um hvaða skynfæri er verið að vinna með hverju sinni og hvaða leiðir er hægt að fara til að örva þau. Hver bók býr yfir hafsjó af tækifærum til að efla málþroska og skynreiðu barna eða eins og einn starfsmaður nefndi: „Þú ert ekki bara að lesa, heldur hugsar þú hvað þú ætlar að gefa börnunum með lestrinum.“ Starfsfólk upplifði meiri skilning hjá börnunum, aukinn og fjölbreyttari orðaforða, upplifði meiri spennu og ánægju bæði hjá sér og börnunum.

Starfsfólk leikskólans er komið með meiri þekkingu á læsistengdri skynjun og hlakkar til að bæta ofan á þá þekkingu í áframhaldandi starfi.

Til að öðlast betri sýn og skilning á verkefninu okkar er fólk hvatt til að skoða meðfylgjandi myndband.

Ingibjörg Jónsdóttir,
leikskólastjóri.