Holtaskóli í 2. sæti í First Lego League
Lið Holtaskóla, sem kallar sig Fat Cats, stóð sig frábærlega í First Lego League keppninni sem haldin var í Háskólabíó um helgina og hreppti 2. sætið í vélmennakappleiknum. Vefur Reykjanesbæjar greinir frá.
Keppnin, sem er á vegum Háskóla Íslands, fagnaði 20 ára afmæli sínu í ár. Þar hanna og forrita þátttakendur eigin þjarka sem leysa fjölbreyttar þrautir á keppnisbraut. Þema keppninnar að þessu sinni var fornleifar, og unnu keppendur einnig að nýsköpunarverkefni tengdu því.
Fat Cats-liðið ákvað að fjalla um Hafurbjarnarstaðakuml, sem er eitt merkasta fornleifasvæði á Suðurnesjum. Pétur Brynjarsson, deildarstjóri unglingastigs í Holtaskóla, fræddi liðið um kumlið og fór með keppendunum í vettvangsferð á kumlateiginn. Þau heimsóttu einnig Þjóðminjasafn Íslands til að fræðast meira um beinagrindina sem fannst í kumlinu og er nú til sýnis á aðalsýningu safnsins.
Í nýsköpunarverkefni sínu hönnuðu þau hugmynd að upplýsingaskilti sem gæti frætt almenning um kumlateiginn og mikilvægi hans, þar sem hann er mjög merkilegur og fáir vita af honum.
Meðlimir liðsins eru:
Aníta Mjöll Ólafsdóttir, Bartosz Krokoszynski, Einar Ágúst Saedkhong, Kristján Bergmann, Róbert Örn Bjarnason, Sebastian Banachowski og Sölvi Steinn Stefánsson.





