Tónlistarskóli RNB tónleikar
Tónlistarskóli RNB tónleikar

Fréttir

Grindvíkingar búsettir í Grindavík, senda áskorun til þingmanna
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
miðvikudaginn 19. febrúar 2025 kl. 12:22

Grindvíkingar búsettir í Grindavík, senda áskorun til þingmanna

Ljósin í bænum

Nokkrir Grindvíkingar sem búsettir eru í Grindavík, hafa sent áskorun til þingmanna og krefjast svara við nokkrum spurningum sem á þeim brenna. Tölvupóstur var fyrstu sendur á alla þingmenn Suðurkjördæmis og kom eitt svar við póstinum. Tölvupósturinn var síðan sendur á alla 63 þingmennina og voru viðbrögðin svipuð, einungis tvö svör bárust.

Hér að neðan er pósturinn sem hópurinn sendi á þingmennina.

Tónlistarskóli RNB tónleikar
Tónlistarskóli RNB tónleikar

Ljósin í bænum

                                                                                                     Grindavík 17.02.2025

Enn þann dag í dag er óvissan mikil í málum Grindvíkinga. Þess má geta að í þessu bréfi er bara brot af þeim spurningum sem Grindvíkingar þurfa að fá svör við.

Kæru Alþingismenn

Við erum íbúar í Grindavík og það eru nokkur mál sem hvíla á okkur sem við viljum koma á framfæri við ykkur. 

Varðandi uppkaupin:

Við sem eigum okkar hús ennþá erum farin að ókyrrast, þurfum við að láta kaupa okkur út?  Sá frestur rennur út 31. mars, væri ekki skynsamlegast að framlengja þann frest um t.d. tvö til þrjú ár? Það er hagur ríkisins að þurfa ekki að kaupa okkur út en það þarf líka að tryggja að brunabótamatið hækki í samræmi við lögin en eru ekki bundin við 31. des 2024.

Bara það að lengja í uppkaupum mun létta af okkur miklum áhyggjum, nógu mikið hefur nú gengið á í okkar málum undanfarið.

 

Þórkatla og hollvinasamningur

Hvers vegna mega  þeir sem gera hollvinasamning við Þórkötlu ekki gista í húsum sínum?  Það þarf að gefa fólki tækifæri til að venjast breyttum aðstæðum. Við erum búin að heyra töluvert núna af húsum sem eru að skemmast, vegna t.d. rakaskemmda því það er nánast engin umgengni um húsin. Það hlýtur að vera ávinningur fyrir okkur Grindvíkinga og Þórkötlu að við fáum húsin í auknu mæli. Þórkatla er með lykilinn af framtíðinni.

 

Upplýsingaflæði til íbúa:

Nú fundar Veðurstofan reglulega um ástandið á Sundhnúkagígaröðinni og er ekki kominn tími til að við fáum staðreyndar upplýsingar í stað þess að þurfa að lesa hamfararspárnar á fréttamiðlunum sem virðast eingöngu vera ætlaðar til að hræða fólk? Veðurstofan gæti póstað beint á síðu Grindavíkurbæjar til dæmis.

Við erum fullorðið fólk með ríka öryggis- og réttlætiskennd.

Við erum fullorðið fólk sem erum búsett í Grindavík og teljum við að við séum með ansi gott náttúruvit og þekkjum þessar hættur sem eru á svæðinu.

Þess má geta að hér er búið að skanna bæinn og lagfæra ansi mikið og þau svæði sem eru ekki trygg eins og er, eru girt af með öryggisgirðingum og því þarf að hafa einbeittan brotavilja til að fara sér að voða.

Ákall um aðstoð

Við viljum sjá Grindavíkurbæ blómstra aftur. 

Það eru ennþá ljós í bænum en hvað verða þau lengi? Við þurfum fyrirsjáanleika varðandi lengd uppkaupafrests.

Við höfum ekki þrek til að halda ljósunum logandi án ykkar aðstoðar og þess vegna þurfum við að heyra frá ykkur og fá einhver svör því þessi óvissa er farin að taka ansi mikið á.

Við íbúar sem erum enn með ljósin kveikt viljum sjá skrefin stigin í átt að endurreisn bæjarins.

Með von um jákvæð viðbrögð við erindi okkar. 

Meðfylgjandi er undirskriftalisti frá Grindvíkingum sem styðja okkur í þessu erindi til ykkar.

Virðingafyllst:

Margrét Eyjólfsdóttir

Magnús Gunnarsson

Svanhvít Másdóttir

Örn Sigurðsson