Fréttir

Góð niðurstaða hjá Suðurnesjabæ á eins árs afmælinu
Frá fyrsta fundi Suðurnesjabæjar árið 2018.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 11. júní 2019 kl. 06:53

Góð niðurstaða hjá Suðurnesjabæ á eins árs afmælinu

Skuldaviðmið 66,6% og hagnaður af rekstri

Rekstur Suðurnesjabæjar er sterkur og skuldaviðmið hans er 66,6% en þann 5. júní 2019 samþykkti bæjarstjórn Suðurnesjabæjar ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2018 eftir aðra umræðu. Suðurnesjabær varð til við sameiningu sveitarfélaganna Garðs og Sandgerðisbæjar og hóf starfsemi þann 10. júní 2018. Suðurnesjabær átti því eins árs afmæli þann 10. júní 2019 og er ársreikningur 2018 því fyrsti ársreikningur Suðurnesjabæjar.

Niðurstöður ársreikningsins eru í góðu samræmi við fjárhagsáætlun ársins 2018 sem samanstendur af fjárhagsáætlunum sveitarfélaganna sem sameinuðust í Suðurnesjabæ. Rekstrarniðurstaða A hluta bæjarsjóðs er afgangur kr. 57 milljónir, en áætlun gerði ráð fyrir afgangi kr. 43,7 milljónir.  Rekstrarafgangur heildaruppgjörs A og B hluta er kr. 53,2 milljónir, en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir afgangi kr. 53,6 milljónir.

Heildar skuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins í árslok 2018 voru kr. 4.243 milljónir, þar af langtímaskuldir við lánastofnanir kr. 2.611 milljónir. Lífeyrisskuldbinding hækkaði frá fyrra ári og var alls 942 milljónir króna.

Skuldaviðmið samkvæmt reglugerð var í árslok 2018 66,6% en samkvæmt lögum og reglugerð má skuldaviðmið ekki fara umfram 150%.

Fjárfestingar voru alls 217,5 milljónir, engin ný lán voru tekin árið 218. Handbært fé í árslok 2018 var 746,8 milljónir króna.

Bæjarstjórn lýsir ánægju með niðurstöður ársreiknings og þakkar öllum stjórnendum og starfsfólki sveitarfélagsins fyrir þeirra framlag við góðan rekstur. Sterk efnahagsleg staða sveitarfélagsins lýsir sér m.a. í því að skuldaviðmið er 66,6%.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs