Flugger
Flugger

Fréttir

Fleiri kvikuhlaup úr Svartsengi líkleg
Miðvikudagur 6. desember 2023 kl. 14:58

Fleiri kvikuhlaup úr Svartsengi líkleg

Nýjustu gögn benda til að innflæði inn í kvikuganginn sem myndaðist 10. nóvember hafi líklega stöðvast. Líkur á eldgosi yfir kvikuganginum í þessari lotu atburðanna á Reykjanesskaga hafa því minnkað verulega. Kvikusöfnun heldur hins vegar áfram undir Svartsengi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Þessari umbrotahrinu við Svartsengi sem hófst í október er því ekki lokið, en segja má að nýr kafli sé að hefjast með auknum líkum á nýju kvikuhlaupi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eins og áður hefur komið fram þá myndaðist kvikugangurinn sem liggur undir Grindavík þegar kvika hljóp úr kvikuinnskotinu við Svartsengi. Líklegt er að sú atburðarrás endurtaki sig. Þegar horft er almennt til umbrotahrina með endurteknum kvikuhlaupum, þá má þó reikna með að næsta kvikuhlaup frá Svartsengi verði minna að umfangi en það sem varð 10. nóvember. Hætta getur þó myndast á umbrotasvæðinu í tengslum við næsta kvikuhlaup. Reikna þarf með að kvikuhlaup geti staðið yfir í nokkrar klukkustundir eða daga með aukinni hættu vegna skjálftavirkni og aflögunar á því tímabili.

Upphafsmerki nýs kvikuhlaups eru skyndileg aukning í skjálftavirkni og skörp breyting í aflögun. Þau merki koma til með að sjást á mælitækjum nokkrum klukkustundum áður en kvikuhlaupið er líklegt til að skapa hættu í Svartsengi eða Grindavík. Ef til kvikuhlaups kemur gerir Veðurstofan almannavörnum strax viðvart sem virkja um leið sínar viðbragðsáætlanir. Komi til kvikuhlaups eykst aftur hættan á eldgosi. Eins og kemur fram hér að ofan er líklegast að kvika hlaupi aftur frá Svartsengi og yfir í kvikuganginn sem myndaðist í gegnum Sundhnjúksgíga 10. nóvember og því er það líklegasti upptakastaður eldgoss.

Ekki er hægt að fullyrða neitt um hvenær næsta kvikuhlaup verður. Óvissan um tímasetningu er mjög mikil og kvikuhlaup gæti orðið á næstu dögum eða mögulega eftir marga mánuði.

Veðurstofan heldur áfram að vakta svæðið og fylgist grannt með merkjum um mögulegt kvikuhlaup sem og öðrum breytingum sem gætu valdið frekari hættu á umbrotasvæðinu við Svartsengi og í og við Grindavík.

Hliðstæða milli umbrotanna við Svartsengi og í Kröflueldum

Síðustu tvo sólarhringi hafa um það bil 200-300 jarðskjálftar mælst nærri kvikuganginum. Það sem af er degi í dag hafa um 100 jarðskjálftar, sá stærsti 2,0 að stærð, mælst á svæðinu. Meirihluti skjálftavirkninnar er áfram um miðbik kvikugangsins á um 3-4 km dýpi. Mikið sig við Svartsengi veldur því að spenna í jarðskorpunni þar hefur breyst. Þar til fyrra spennustigi verður náð má búast við óverulegri skjálftavirkni á svæðinu.

Meirihluti skjálftavirkninnar er áfram um miðbik kvikugangsins á um 3-4 km dýpi. Mikið sig við Svartsengi veldur því að spenna í jarðskorpunni þar hefur breyst. Þar til fyrra spennustigi verður náð má búast við óverulegri skjálftavirkni á svæðinu.

Þrátt fyrir að dregið hafi úr skjálftavirkni síðustu vikur má búast við frekari umbrotahrinum á Reykjanesskaganum. Dæmi um slíkar umbrotahrinur má sjá í Kröflueldum sem hófust 1975. Á 10 ára tímabili urðu þar 20 kvikuhlaup og enduðu 9 þeirra með eldgosi (Sjá skýringarmynd hér fyrir neðan). Í Kröflueldum fóru kvikuhlaupin öll inn í sama kvikugang og voru mismikil að umfangi. Sambærilega endurtekningu má einnig sjá í virkninni í kringum Fagradalsfjall.

Líkanreikningar út frá nýjustu gögnum benda til þess að rúmmál kviku sem nú hefur safnast fyrir undir Svartsengi sé talsvert minna en rúmmálið var rétt fyrir kvikuhlaupið 10. nóvember. Ef horft er til kvikusöfnunar og kvikuhlaupa í Kröflueldum sést að magn kviku sem safnaðist í Kröfluöskjuna var mest fyrir fyrsta kvikuhlaupið. Minna magn hafði svo safnast fyrir í öskjunni áður en næstu kvikuhlaup fóru af stað. Reikna má með að svipuð þróun verði í tengslum við kvikusöfnun undir Svartsengi og að minna magn kviku þurfi að safnast fyrir til að koma af stað næsta kvikuhlaupi inn í kvikuganginn sem liggur undir Grindavík. Líkur eru á að það mælist hægt vaxandi skjálftavirkni áður en nýtt kvikuhlaup fer af stað, sem eru þá merki um aukinn þrýsting undir Svartsengi.

Myndin sýnir samspil milli myndun kvikuganga og landhæðar í miðri Kröfluöskjunni. Neðri myndin sýnir landhæð mælipunkts innan Kröfluöskjunnar, en sú efri hvar umbrotasvæði voru í hverri hrinu. (Páll Einarsson og Bryndís Brandsdóttir, 2021)