Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Enn talsverður kraftur í gosinu
Eldgosið séð frá Reykjanesbæ nú síðdegis. Neðst í fréttinni er beint streymi með sama sjónarhorni. VF/Hilmar Bragi
Mánudagur 25. nóvember 2024 kl. 16:40

Enn talsverður kraftur í gosinu

Frá því um kvöldmatarleytið í gær dró enn frekar úr gosóróa og sýnilegri virkni gossins, en virknin náði síðan aftur stöðugleika eftir miðnætti. Enn er þó talsverður kraftur í gosinu og hefur virknin ekki minnkað jafn hratt og í fyrri eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni. Til samanburðar má nefna að hraunflæðið í gosinu þessa stundina er metinn á við hraunflæðið í kröftugustu gosunum í Fagradalsfjalli. Frá þessu er greint í nýrri samantekt Veðurstofu Íslands.

Gororoi25112024

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þetta graf sýnir gosóróann (græn og blá lína) frá upphafi eldgossins þann 20. nóvember. Skörp lækkun í gosóróa varð að morgni 24. nóvember, og enn frekari lækkun að kvöldi sama dags. Með því að bera saman óróagraf í þessu eldgosi saman við óróagröf fyrri eldgosa sést að virknin í þessu eldgosi hefur ekki minnkað jafn hratt og í fyrri eldgosum á Sundhnúksgígaröðinni.

Nyrsti gígurinn er virkastur og frá honum liggur nú megin hraunstraumurinn til austurs. Í nótt sást af og til slettast kvika upp fyrir gígbarma syðsta gígsins en ekki hefur sést til virkni í honum í dag. Svipað á við um miðgíginn sem var virkasti gígurinn fyrstu daga gossins, en verulega dró úr virkni í honum í gær og ekki sést til virkni í honum í dag í vefmyndavélum.

Hraunstraumurinn sem legið hefur til vesturs hefur hægt á sér og kólnað á yfirborði. Enn má þó búast við að hraunrennsli haldi áfram undir yfirborði í átt að varnargörðum við Svartsengi og Bláa Lónið þó svo að dregið hafi töluvert úr framrás þess.

Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar mældu útbreiðslu hraunsins á laugardaginn, þegar gos hafði staðið yfir í um 3 daga. Samkvæmt þeim mælingum var heildarrúmál hrauns orðið um 43 milljónir rúmmetra og þakti það um 8.5 ferkílómetra lands. Þetta er um 65% af því rúmmáli sem kom upp í síðasta eldgosi sem stóð í 14 daga.

Land heldur áfram að síga í Svartsengi, en hægt hefur á því miðað við landsig í upphafi goss. Enn er of snemmt að segja til um hvort kvikusöfnun haldi áfram undir Svartsengi. Draga þarf enn frekar úr hraunflæði gossins áður en hægt er að segja til um það framhald kvikusöfnunar.

Mikilvægt að fylgjast áfram með gasmengun

Í dag snýst vindátt og verður breytileg svo vænta má þess að gosmengun geti dreifst um nærliggjandi svæði á suðvesturhelmingi landsins. Sjá gasdreifingarspá og rauntímamælingar á vef Umhverfisstofnunar

Hættumat óbreytt

Veðurstofan hefur gefið út uppfært hættumat og er það óbreytt frá því síðast. Hættumatið gildir til kl. 15, miðvikudaginn 27. nóvember, að öllu óbreyttu.

Haettusvaedi_VI_25nov_2024