Enn gýs í tveimur gígum og hraun rennur til austurs - áfram gosmóða
Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni hefur verið stöðugt í nótt, virkni er áfram bundin við tvo gíga fyrir miðbik gossprungunnar. Áfram rennur hraun til austurs í Fagradal, en lélegt skyggni er á gosstöðvunum og ekki fæst séð hvort hraunjaðarinn hafi færst til í nótt, segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
Gasdreifingarspá veðurstofunnar gerir ráð fyrir gasmengun (SO2) frá gosinu á Suðurlandi og Vesturlandi í dag. Búast má áfram við blámóðu (gosmóðu) allvíða á landinu, síst þó suðaustan- og austanlands. Gosmóðan gæti orðið þrálát, því útlit er fyrir hæga breytilega átt þangað til síðdegis á mánudag. Þar á eftir er spáð norðan 3-8 m/s sem gæti verið nægur vindur til að hreyfa við móðunni. Bendum við fólki á að fylgjast með á vef Umhverfis- og Orkustofnunar, loftgaedi.is, þar sem gosmóða kemur fram á mælum sem fínt svifryk (PM1) ásamt örlítilli hækkun í brennisteinsdíoxíð (SO2). Á vefnum er einnig hægt að finna upplýsingar um viðbrögð við gosmóðu, en meðal annars ættu viðkvæmir einstaklingar, börn og aldraðir að forðast langa dvöl utandyra.