Opus Futura
Opus Futura

Fréttir

Endurskipulagning húsnæðis í Njarðvíkurskóla og Hjallatúni til skoðunar
Þriðjudagur 29. apríl 2025 kl. 08:50

Endurskipulagning húsnæðis í Njarðvíkurskóla og Hjallatúni til skoðunar

Húsnæðismál í tveimur af menntastofnunum Reykjanesbæjar voru til umfjöllunar á fundum menntaráðs og bæjarráðs á dögunum. Um er að ræða breytingartillögu við leikskólann Hjallatún og hugmyndir um heildarendurskoðun á húsnæði Njarðvíkurskóla.

Starfsmannaaðstaða bætt í Hjallatúni

Á fundi menntaráðs 11. apríl kynnti Ólöf Magnea Sverrisdóttir, leikskólastjóri Hjallatúns, tillögu um að breyta norðurgangi leikskólans, viðbyggingu frá árinu 2014, í starfsmannaaðstöðu og sérinngang fyrir starfsfólk. Jafnframt yrðu tvær litlar deildir fluttar úr norðurganginum yfir í rými sem nú eru notuð sem skrifstofur stjórnenda.

Bílakjarninn frá sept. 25
Bílakjarninn frá sept. 25

Með breytingunni myndi starfsaðstaða starfsfólks batna til muna, sameiginleg rými skólans nýtast betur og þörfin fyrir færanlega kennslustofu á lóðinni hverfa.

Menntaráð tók vel í erindið og vísaði því til bæjarráðs, sem samþykkti að fela Helga Arnarsyni, sviðsstjóra menntasviðs, að vinna nánari þarfagreiningu í samræmi við verklagsreglu um framkvæmdir og húsnæðisbreytingar.

Heildræn endurskoðun á Njarðvíkurskóla

Á sama fundi menntaráðs kynnti Rafn Markús Vilbergsson, skólastjóri Njarðvíkurskóla, þá ósk að farið verði í heildrænt hönnunarferli fyrir húsnæði skólans. Hann benti á mikilvægi þess að greina þarfir skólans bæði til skemmri og lengri tíma og aðlaga bygginguna að nýjum áskorunum í starfsemi skólans.

Menntaráð tók einnig jákvætt í þá tillögu og vísaði henni til bæjarráðs. Bæjarráð samþykkti að fela Helga Arnarsyni sviðsstjóra að vinna þarfagreiningu fyrir verkefnið á sama grundvelli og hjá Hjallatúni.