Blik í auga
Blik í auga

Fréttir

Bláa Lónið býður gesti velkomna á ný
Þær voru í Bláa lóninu í dag.
Föstudagur 19. júní 2020 kl. 23:51

Bláa Lónið býður gesti velkomna á ný

Í dag bauð Bláa Lónið gesti velkomna á ný eftir að hafa verið lokað síðastliðna þrjá mánuði.

Bæði innlendir og erlendir gestir heimsóttu Bláa Lónið í dag og var gestum meðal annars boðið upp á flotupplifun, smakk af matseðli og ýmis sértilboð. Þá voru allar konur leystar út með glaðningi frá Bláa Lóninu í tilefni kvenréttindadagsins. Veðrið lék við gesti og skartaði Bláa Lónið sínu fegursta.

Nú þegar hefur fjöldi fólks nálgast sumargjöf Bláa Lónsins sem kynnt var í síðustu viku en hægt er að nýta hana út ágúst 2020. Á vefsíðu Bláa Lónsins (blaalonid.is) er nú einnig að finna hugmyndir að fjölmörgum afþreyingarmöguleikum sem í boði eru í sumar sem tengjast meðal annars hinu margverðlaunaða Retreat hóteli, veitingastaðnum Moss og neðanjarðarheilsulindinni Retreat Spa.

„Við fögnum því að geta nú aftur tekið á móti gestum þó það sé alveg ljóst að gestafjöldinn í sumar verður ekki sá sami og við eigum að venjast á þessum árstíma. Sumargjöf Bláa Lónsins hefur fengið frábærar viðtökur og erum við himinlifandi yfir þeim, en Íslendingar virðast mjög áhugasamir að heimsækja okkur í sumar og upplifa allt það sem Bláa Lónið hefur uppá að bjóða. Við hlökkum sérstaklega til þess að taka vel á móti þeim,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.