Fréttir

Báknið ekki að stækka
Frá fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar í Hljómahöll.
Sunnudagur 8. desember 2019 kl. 14:34

Báknið ekki að stækka

Nærri 5 þúsund nýir íbúar frá árinu 2014 eða 33,5%

Meirihluti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar segir eðlilegar skýringar á fjölgun starfsmanna Reykjanesbæjar og vísar tali um stækkandi bákn til föðurhúsanna. Þetta kemur fram í bókun meirihlutans á fundi bæjarstjórnar 3. desember en sjálfstæðismenn í minnihluta bæjarstjórnar hafa ítrekað gagnrýnt meirihlutann um að báknið sé að stækka, á sama tíma sé ekki hægt að lækka fasteignagjöld meira en raun ber vitni.

Í bókuninni frá meirihlutanum segir að frá árinu 2014 hafi íbúum í Reykjanesbæ fjölgað um 4.867 eða 33,5%.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Því hefur verið haldið á lofti að stjórnsýslan í Reykjanesbæ sé að þenjast út sem aldrei fyrr, að báknið sé að stækka eins og það er orðað. Tölur um launagreiðslur sem hlutfall af tekjum segja hins vegar aðra sögu.Vissulega er störfum að fjölga í Reykjanesbæ og á það sínar eðlilegu skýringar. Samkvæmt Gagnatorgi Reykjanesbæjar voru íbúar 14.524 talsins árið 2014 en í október 2019 voru þeir orðnir 19.391. Á sama tímabili hefur nemendum í grunnskólum Reykjanesbæjar fjölgað um 374 eða 18%. Nemendur í grunnskólum Reykjanesbæjar voru 2.072 árið 2014 og eru nú 2.446. Til að setja þessar tölur í samhengi má geta þess að í Myllubakkaskóla eru nú 369 nemendur og í Holtaskóla eru nemendur 396. 

Það er því hægt að segja að fjölgun síðustu ára nemi nemendafjölda í heilum grunnskóla. 

Hver nemandi í grunnskólum Reykjanesbæjar kostar samkvæmt upplýsingum frá fræðsluskrifstofu 1.518 þúsund krónur og því er viðbótarkostnaður vegna þessarar miklu fjölgunar nemenda orðinn tæpar 600 milljónir.

Börn í grunnskólum sem hafa annað tungumál en íslensku sem móðurmál hefur einnig fjölgað verulega og eru nú 25,3% af heildarfjölda nemenda. Fjöldi barna sem fá sérstaka kennslu í íslensku sem öðru tungumáli hefur fjölgað verulega frá árinu 2014 eða um 55%.

Þrátt fyrir að börnum í leikskólum Reykjanesbæjar hafi ekki fjölgað mikið hefur börnum sem hafa annað tungumál en íslensku fjölgað verulega og eru nú orðinn 27,2% allra leikskólabarna eða 255 talsins.

Þessar miklu samfélagsbreytingar kalla eðlilega á fjölgun starfsfólks og hefur starfsfólki í grunnskólum fjölgað úr 340 árið 2014 í 464 eða um 37%. Starfsfólki á leikskólum hefur hins vegar fjölgað um tæplega 9% þrátt að börnum hafi aðeins fjölgað lítillega. Gera má ráð fyrir að samfélagsbreytingin sé að hafa þessi áhrif.

Það vekur hins vegar athygli að á sama tíma og þessi þróun hefur átt sér stað, hafa útgjöld vegna launa sem hlutfall af tekjum lækkað úr 47% á árinu 2014 í 42% árinu 2018. Öllu tali um að báknið sé að stækka er því vísað til föðurhúsanna,“ segir í bókun meirihlutans.