Aðsent

Við erum rétt að byrja
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 10:11

Við erum rétt að byrja

Við í Framsókn höfum sýnt í verki á síðasta kjörtímabili að okkur er umhugað um heilsu og vellíðan íbúa. Fyrir síðustu kosningar lögðum við til að sveitarfélagið myndi gera heiðarlega tilraun til að reka heilsugæsluhluta Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja með fjármagni frá ríkinu. Við töldum og teljum enn að þjónusta sem rekin er af þeim sem nota hana og þeim sem þekkja nærumhverfið sé besti valkosturinn. Hugmyndin fékk ekki hljómgrunn hjá yfirvöldum og við tók áframhaldandi barátta fyrir nýrri heilsugæslu og auknum fjármunum til rekstrar HSS sem að okkar mati hefur gengið alltof hægt. En nú kveður við annan tón.

Þegar sá sem hefur valdið hefur vilja

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eftir að Willum Þór Þórsson tók við embætti heilbrigðisráðherra hefur margt gerst í málaflokknum á Suðurnesjum. Fjármagn var tryggt til að hefja miklar endurbætur á HSS, búið er að tryggja fjármagn í nýja heilsugæslu og við finnum að nú er bæði hlustað á raddir okkar og mikill vilji er til þess að snúa hér við blaðinu. Það gerir ekki einn maður heldur þarf allt samfélagið að leggjast á eitt. Þegar samvinna og lausnaleit eru í fyrirrúmi fara hjólin að snúast og þá förum við að sjá jákvæðar breytingar. Við í Framsókn höfum bankað reglulega á dyr HSS með ósk um samvinnu því við teljum að það sé rétta leiðin til að tryggja bætta grunnheilbrigðisþjónustu. Bankið hefur nú þegar skilað árangri því við höfum fullvissað stjórnendur stofnunarinnar um að okkur í Framsókn sé treystandi til að leiða samstarfið af skynsemi svo stofnunin geti þjónað okkur öllum.

Svona vinnum við

Við í Framsókn ætlum að stíga af krafti inn í þennan samstarfstón forstjóra og stjórnenda HSS og tryggja sátt og þær umbætur sem eru nauðsynlegar. En til að það raungerist þá þurfum við íbúa í okkar öfluga lið og saman munum við tryggja að málaflokkurinn komist í lag í eitt skipti fyrir öll. Það mun taka tíma en við verðum að hefjast handa strax. Við höfum nú þegar fundað með stjórn HSS og lagt fram okkar áherslur og skýran samstarfsvilja. Það er mikilvægt að efla ímynd stofnunarinnar, vinna áfram að bættu starfsumhverfi núverandi starfsmanna og gera HSS að enn ákjósanlegri valkosti svo fjölga megi heilbrigðisstarfsfólki. Skemmst er frá því að segja að stjórnendur stofnunarinnar hafa tekið boðinu fagnandi og við finnum virkilegan vilja til að hefja hér stórsókn í heilbrigðismálum. Samvinnan er hafin og svona vinnum við í Framsókn. Við erum tilbúin að leiða þessa vinnu, leita lausna og láta verkin tala.

Ekkert um okkur án okkar

Við í Framsókn höfum lagt til við forstjóra HSS að skipað verði notendaráð stofnunarinnar en það er í samræmi við lagafrumvarp sem heilbrigðisráðherra mælti fyrir í mars sl. Það frumvarp varðar breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem lagt er til að sett verði á fót sjö manna notendaráð í heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðherra skipar. Notendaráði er ætlað að veita forstjórum heilbrigðisstofnana ráðgjöf og aðhald með virku samráði til að tryggja að sjónarmið notenda komi til skoðunar við ákvarðanatöku um skipulag og rekstur heilbrigðisstofnana. Forstjórum og stjórn heilbrigðisstofnana, þar sem við á, skulu hafa samráð við notendaráð til að tryggja að sjónarmið notenda séu höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku um atriði er varða hagsmuni sjúklinga innan heilbrigðisstofnana.

Kjósum þá sem gæta hagsmuna okkar

Þegar þú stígur inn í kjörklefann velur þú þann hóp sem þú treystir best til að gæta þinna hagsmuna og allra bæjarbúa. Það ætlum við að gera í þessum málaflokki sem og öðrum og tryggja að þjónustan taki mið af þörfum notenda, hvort sem hún er á höndum einkaaðila, ríkis eða sveitarfélags. Við í Framsókn erum stolt af því sem við höfum lagt af mörkum til þessa, framundan eru ótal tækifæri í samfélaginu okkar sem þarf að grípa og vinna vel úr. Sú vegferð krefst festu, kjarks og þors til að taka skynsamar ákvarðanir og framkvæma. Við þurfum þinn stuðning til að geta haldið þeirri vinnu áfram því við erum rétt að byrja.
Setjum X við B 14. maí og eflum samfélagið okkar – saman!

Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir skipar 1. sæti og Bjarni Páll Tryggvason skipar 2. sæti á B-lista Framsóknar í Reykjanesbæ fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí næstkomandi.