Aðsent

Veljum Beina leið áfram
Föstudagur 13. maí 2022 kl. 14:08

Veljum Beina leið áfram

Á morgun verður blásið til uppskeruhátíðar þar sem fram fara sveitarstjórnarkosningar en einnig munu systkinin dásamlegu gleðja okkur með þátttöku sinni í Eurovision.

Í Reykjanesbæ verður kosið um það hvort þau sem stjórnað hafa sveitarfélaginu undanfarin átta ár fái umboð til þess að halda því áfram á næsta kjörtímabili.
Það er eðlilegt að fólk spyrji sig hvort rétt sé að veita þeim slíkt umboð, hvort viðunandi árangur hafi náðst á liðnu kjörtímabili sem réttlæti  slíkt.

Árangurinn er augljós

Í mínum huga er svarið einfalt. Unnið hefur verið þrekvirki við að láta hlutina ganga, þrátt fyrir verulegar áskoranir vegna mikils atvinnuleysis. Að byggja skóla upp á milljarða án lántöku er gott dæmi um það hversu vel hefur verið haldið á fjármálum sveitarfélagsins, en skólinn er bara eitt dæmi af mörgum sem staðfesta hæfni þessara aðila til að stýra sveitarfélaginu. Nú er hins vegar komið að uppskera en rétt eins og í Litlu gulu hænunni þá vilja margir borða kökuna sem er nú orðin ágætlega bragðgóð.

Er alltaf rétt að breyta?

Kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og Framsóknarflokksins í Reykjavík hefur verið keyrð áfram á sama hátt þ.e. að þessir flokkar ætli sér í breytingar. Það er gott og blessað að vera tilbúinn í breytingar, því verkefnin sem bíða sveitarfélaganna eru mýmörg. En það má einnig spyrja sig hvort rétt sé að breyta því sem vel gengur.
Á bara að breyta breytinganna vegna?

Bein leið virkar

Ég stíg nú til hliðar sem bæjarfulltrúi eftir setu í bæjarstjórn í fjögur kjörtímabil.  Við keflinu í oddvitasæti Beinnar leiðar tekur Valgerður Pálsdóttir, sem setið hefur sem formaður fræðsluráðs síðasta kjörtímabil.
Valgerður hefur allt til að bera til að sitja sem oddviti og bæjarfulltrúi í meirihluta.
Hún og hennar fólk á listanum er búið að ganga í gegnum fjárhagslega endurreisn Reykjanesbæjar, þekkir orðið stjórnsýsluna út og inn og hefur hjartalag til þess að forgangsraða rétt þ.e. að setja almannahag ofar sérhagsmunum.

Veljum því Beina leið til áframhaldandi forystu og setjum X við Y á kjördag.

Guðbrandur Einarsson

fráfarandi oddviti Beinnar leiðar og alþingismaður.