Flugger
Flugger

Aðsent

Þakklát fyrir útikennslusvæðið í Narfakotsseylu
Þriðjudagur 19. júní 2012 kl. 10:11

Þakklát fyrir útikennslusvæðið í Narfakotsseylu

Skólarnir þrír í Innri Njarðvík, þ.e. Akurskóli og leikskólarnir Akur og Holt hafa nú tekið í notkun sameiginlegt útinámssvæði í Narfakotsseylu og langar okkur af því tilefni að rekja aðdraganda þess í stuttu máli. Hugmyndir um uppbyggingu útinámssvæðis kviknuðu haustið 2008 hjá þeim Önnu Sofiu og Karólínu og var frá upphafi ákveðið að þetta yrði samfélagslegt samstarfsverkefni skólanna þriggja í Innri Njarðvík þar sem nemendur og börn frá tveggja ára til sextán ára aldurs tækju virkan þátt í verkefninu frá upphafi til enda. Hugsjónin á bak við verkefnið er að nemendur og börn komist í nánara samband við náttúruna, umhverfið og samfélagið á merkingarbæran hátt í gegnum nám. Útikennslusvæðið var hugsað sem aðstaða fyrir nemendur, börn og kennara í útináminu en einnig fyrir aðra íbúa og gesti.

Stýrihópur með fulltrúum skólanna var settur á laggirnar til að halda utan um framgang verkefnisins. Haustið 2009 hittust kennarar skólanna þriggja í Akurskóla og átti sameiginlegan starfsdag við undirbúning verkefnisins en í kjölfarið hófst hugmyndavinna og þróun verkefnisins innan skólanna. Á vorönn 2010 hittust nemendur skólanna til að ræða saman og viðra hugmyndir. Í kjölfarið var lögð fram tillaga um uppbyggingu útinámssvæðis í Kópu sem kynnt var fyrir Umhverfis- og skipulagsráði Reykjanesbæjar. Þeirri tillögu var hafnað og í kjölfarið hófst nýtt ferli þar sem m.a. var leitað eftir nýrri staðsetningu. Landslagsarkitektinn Guðmundur Hrafn Arngrímsson var fenginn til samstarfs og lagði hann fram áhugaverðar hugmyndir um að nýta sérstöðu svæðisins við Narfakotsseylu og vinna út frá hugmyndum um sjósókn og atvinnuhætti fyrri tíma. Vann hann m.a. út frá þeim hugmyndum sem nemendur og leikskólabörn höfðu unnið.

Skemmtilegt uppbyggingarferli hófst í september 2011 þegar fjölþjóðlegur hópur frá sjálboðaliðasamtökunum SEEDS mættu til leiks og unnu með okkur í tvær vikur. Í framhaldi hittust börn, foreldrar og kennarar skólanna og unnu að áframhaldandi uppbyggingu.

Náið samstarf hefur verið haft að leiðarljósi í öllu ferlinu þar sem börn, foreldrar, kennarar og stjórnendur hafa lagt sitt að mörkum. Með samstilltu átaki er þetta skemmtilega verkefni nú orðið að veruleika og á eftir að nýtast skólunum og samfélaginu um ókomin ár.

Við viljum færa öllum kærar þakkir sem hafa komið að verkefninu og hjálpað til að gera það að veruleika. Jafnt þeim sem komið hafa að beinni uppbyggingu svæðisins sem og stjórnendum skólanna og þeim sem styrkt hafa verkefnið með beinum hætti s.s. Manngildissjóði og Umhverfis- og skipulagssviði Reykjanesbæjar. Einnig þökkum við Magma Energy fyrir veittan stuðning.

Stýrihópurinn
Anna Sofia Wahlström, Cynthia Grinspan, Erna Ósk Steinarsdóttir, Karólína Einarsdóttir og Magnús Valur Pálsson

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024