Aðalskoðun 30 - 5 okt
Aðalskoðun 30 - 5 okt

Aðsent

Loftgæðum Reykjanesbæjar  úthýst til Arion banka
Föstudagur 22. maí 2020 kl. 12:10

Loftgæðum Reykjanesbæjar úthýst til Arion banka

Leikmaður spyr hvaða lagaskyldu um framtíð kísilversins í Helguvík yrði ekki fullnægt samkvæmt sveitarstjórnarlögum ef íbúakosning færi fram, t.d. um fyrirsjáanleg versnandi loftgæði í Reykjanesbæ vegna eiturefna frá starfseminni? Snýst lagaskyldan um að úthýst hafi verið, á einhverjum tímapunkti til fimm manna stjórnar fjármálafyrirtækis í Reykjavík‚ lögbundnu leyfi til að ráða loftgæðum í bæjarfélaginu til frambúðar. Að það fái þar með mögulegan bótarétt ef íbúarnir neita að sættast á loftgæðin sem þeir boða.

Mýta bæjarfulltrúanna

Íbúafundur um aðgerðir í atvinnumálum, sem haldin var 14. maí síðastliðinn, var eins og vera ber upplýsandi og skilmerkilegur. Hann var haldinn í samræmi við sveitarstjórnarlög og vísað til þeirra í umræðu og svari við innsendri fyrirspurn um mögulega íbúakosningu. Kjarni hennar var „hver er raunveruleg ástæða þess að bæjarstjórn virðist ekki vilja halda íbúakosningu um málið?“ Bæjarstjóri sem var til svara vísaði til 107. og 108. greina sveitarstjórnarlaga og hengdi hatt sinn á þessar tvær lagagreinar, fyrir ómöguleika íbúakosningar. Hann las meðal annars upp alla 3. málsgrein 108. gr. þar sem vísað er til 107. gr. um almennar atkvæðagreiðslur‚ sem lýkur með eftirfarandi orðalagi‚ „... eða tillögu sem gengur gegn lögum eða mundi leiða til þess að lagaskyldu yrði ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins“. Hvaða mýta er í gangi? Hvernig hefur sveitarfélagið skuldbundið sig að lögum með samningum við einkafyrirtæki sem setur heilsu bæjarbúa að veði? Sveitarfélaginu ber skylda til að upplýsa bæjarbúa ef svo er. Þ.e. ef það hefur gengist undir bótaskyldar skuldbindingar sem ganga framar rétti íbúa til að anda að sér hreinna lofti en fyrirtækið boðar.

Framleiðslan var stöðvuð vegna forsendubrests í mengun frá kísilverinu. Þrátt fyrir stöðugar mengunarmælingar‚ sem virtust ávallt undir lögbundnum viðmiðunarmörkum, fann stór hópur íbúa fyrir miklum óþægindum og vanlíðan sem rakin var til kísilversins. Starfræksla kísilversins var stöðvuð vegna eituráhrifa sem hún hafði á íbúa. Loftgæði í bæjarfélaginu höfðu versnað svo að ekki var við unað. Forsendur loftgæða stóðust hvorki loforð né lagaskildu fyrirtækisins við íbúa Reykjanesbæjar né við opinbera eftirlitsaðila.

Loftgæðin, grunnvatnið og ásýndin í brennidepli

Nú eru komnir nýir eigendur. Jafnvel þeir fullyrða í frummatsskýrslu sinni um mat á umhverfisáhrifum, með eftirfarandi niðurstöðu um heildaráhrif við rekstur kísilversins.

„Áhrif á umhverfisþætti eru metin frá því að vera nokkuð neikvæð á loftgæði, grunnvatn við fullbyggða verksmiðju og ásýnd yfir í nokkuð jákvæð á atvinnustig samfélags á framkvæmdatíma og talsvert jákvæð á samfélag á rekstrartíma. Áhrif á aðra umhverfisþætti eru metin óveruleg.“

Þeir boða að loftgæði muni minnka og að starfsemin muni einnig hafa nokkuð neikvæð áhrif á grunnvatn og ásýnd bæjarfélagsins.

Er mögulegt að það gangi gegn einhverjum lögum eða leiði til þess að sérstakri lagaskyldu við Arion banka verði ekki fullnægt af hálfu sveitarfélagsins ef bæjaryfirvöld virða vilja 20% þeirra sem kosningarétt eiga í sveitarfélaginu og æskja samþykktar íbúa í kosningum fyrir að heimila bankanum að minnka loftgæði, vatnsbúskap og ásýnd í sveitarfélaginu til frambúðar?

Reykjanesbæ 18. maí 2020,
Tómas Láruson.