Aðsent

Hvers vegna Bein leið?
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 10:04

Hvers vegna Bein leið?

Við í Beinni leið brennum fyrir bæinn okkar. Við erum fólk með víðtæka reynslu og breitt þekkingasvið sem nýtist við hvers kyns ákvarðanatökur. Við í Beinni leið erum líka rík af fólki í kring um okkur sem styður við málefnin okkar og við getum leitað til ef svo ber undir. Við viljum að bæjarbúar og bæjarstjórn sameinist um það sem best er fyrir íbúa, alla íbúa hverju sinni. Það þýðir að okkur er velferð íbúa efst í huga. Fyrst og fremst viljum við styrkja stoðir og hlúa að mannauði bæjarins, við viljum efla virkni og vellíðan allra með notendasamráð að leiðarljósi, sá sem notar þjónustuna verður að hafa um hana að segja og taka þátt í ákvörðunum. Við viljum efla þjónustu við börn og barnafjölskyldur með því að koma til móts við ólíkar þarfir.  Við erum byrjuð að fjölga leikskólarýmum og ætlum að halda því ótrauð áfram, við viljum félagsmiðstöðvar í hverfin og efla stoðþjónustu skólanna okkar, við viljum sameinast um að setja börnin okkar áfram í forgang. Við viljum vinna heildstæða frístundastefnu með virkni og vellíðan allra að leiðarljósi og frístundastyrkur fyrir eldri borgara er sannarlega það sem koma skal. Halda þarf áfram uppbyggingu innviða íþróttafélaganna og huga að næstu skrefum í góðu samráði við félögin sjálf. Fjölbreyttari atvinnumöguleikar þar sem stutt er við frumkvöðlastarfsemi og bærinn gerður að ákjósanlegum stað til að stofna og reka fyrirtæki er afar mikilvægt. Tryggja þarf markvissa og öfluga innleiðingu á nýrri umhverfis- og loftlagsstefnu Reykjanesbæjar og um leið hlúa að náttúru- og útivistarsvæðum með aukinni skógrækt og fjölgun leiksvæða.

Við viljum sameinast um heildstæða stefnu þar sem líf og störf íbúa eru í fyrirrúmi, þar sem allir geta fundið eitthvað við hæfi í leik og starfi í skjóli öruggra menntastofnanna, faglegrar frístundaþjónustu og blómlegs atvinnulífs. Þess vegna biðjum við um þinn stuðning, þess vegna á að kjósa Beina leið.

Valgerður Björk Pálsdóttir,
1. sæti Beinnar leiðar í Reykjanesbæ.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024