Aðsent

Getum þetta saman  – Grindavík
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 10:35

Getum þetta saman – Grindavík

Þann 14. maí næstkomandi munu kjósendur velja sér fulltrúa í bæjarstjórn Grindavíkurbæjar til næstu fjögurra ára. Ljóst er að fimm framboð verða í sveitarfélaginu og er ánægjulegt að sjá hversu margir hafa áhuga á málefnum bæjarfélagsins. Fjölbreytnin er töluverð og gefur það íbúum Grindavíkurbæjar all nokkra valmöguleika til að velja þá einstaklinga sem þeir treysta best að stýra sveitarfélaginu næstu fjögur árin. Sjálfstæðisflokkurinn í Grindavík býður fram lista með öflugum einstaklingum sem hafa meðal annars reynslu af sveitarstjórnarmálum og stjórnun sveitarfélagins. Listinn er mjög fjölbreyttur og teljum við hafa tekist vel til vals á frambjóðendum sem koma mismunandi sjónarmiðum að málefnum, hvort sem litið er til aldurs, kynja, starfa eða reynslu. Frambjóðendur sjálfstæðisflokksins vinna sem ein heild og hafa sett stefnu í að byggja upp sterka innviði, auka þjónustu við íbúa, skapa ákjósanlegt rekstrarumhverfi til fyrirtækjareksturs, horfa til frambúðar í stefnumótun og síðast en ekki síst að rekstur að sveitarfélagsins standi undir þjónustunni sem því ber að veita.

Eftirfylgni og stöðugleiki

Public deli
Public deli

Fyrir seinasta kjörtímabil setti sjálfstæðisflokkurinn í Grindavík fram metnaðarfulla stefnu og er fagnaðarefni að segja frá því að mjög vel hefur tekist til að fylgja henni eftir. Mikill vandi var hjá barnafjölskyldum hvað varðar aðgang að daggæslu eða leikskólaplássum. Á stefnuskránni okkar var meðal annars að opna daggæslu á Gerðavöllum og hefja vinnu við nýjan leikskóla. Daggæslan á Gerðavöllum varð að veruleika snemma kjörtímabilsins, ásamt því að bætt var deild hjá leikskólanum Króki sem leysti brýnan vanda hjá mörgum barnafjölskyldum. Birgitta H. Ramsay Káradóttir, bæjarfulltrúi sat í byggingarnefnd fyrir leikskóla og hefur nýr leikskóli verið hannaður og er tilbúinn í útboð sem er áætlað á árinu. Markmiðið sjálfstæðisflokksins í Grindavík er að veita öryggi og þjónustu strax að loknu fæðingarorlofi á ábyrgan hátt. Teljum við það ákjósanlegast í höndum fagaðila í leikskólum bæjarins, þar sem grunnur að menntun barna er lagður á fyrsta skólastiginu. Því er ánægjulegt að leikskóli í Hlíðarhverfi sé að verða að veruleika.

Atvinnu og ferðamál urðu fyrir barðinu á miklum hæðum og lægðum á kjörtímabilinu. Á stefnuskrá okkar í sjálfstæðisflokknum settum við það markmið að ráða ferðamálafulltrúa og að skapa kjöraðstæður fyrir fyrirtæki í bæjarfélaginu. Upplýsinga- og ferðamálafulltrúi var ráðinn til starfa og varð fljótt mikilvæg stoð í miðlun upplýsinga í kringum stórvæginleg málefni sem upp komu, jarðhræringar sem enduðu á eldgosi og heimsfaraldur. Auðvitað höfðu þessi fyrirbæri líka víðtæk áhrif á aðra starfsemi hér í Grindavík en teljum við að fyrirtæki og stofnanir hafa staðið sig með eindæmum vel í að vera lausnamiðuð og vinna sem best úr aðstæðum.

Hvað varðar málefni eldri borgara viljum við lýsa yfir stolti af þeirri hugmynd sem sjálfstæðisflokkurinn í Grindavík kom með varðandi Félagsheimili eldri borgara. Oddviti sjálfstæðismanna, Hjálmar Hallgrímsson leiddi vinnuhóp um bygginguna sem mun vonandi efla félagsstarf eldri borgaranna okkar. Eftir vel ígrundaða hönnunarvinnu í samráði við eldri borgara, ásamt skipulagningu á svæðinu kringum Víðihlíð er niðurstaðan skemmtilegt hverfi og glæsileg bygging sem hýsa mun félagsheimilið. Það verður vissulega fagnaðarerindi þegar félagsheimilið verður tekið í notkun.

Enn fremur settum við okkur stefnu í að efla og styðja sérstaklega við eldri borgara, en starfsmenn Miðgarðs stóðu vaktina með mikilli prýði og sveigjanleika í því mikla óvissuástandi sem ríkti á kjörtímabilinu sem leið.

Ánægjan býr í Grindavík

Nýleg skoðanakönnun leiddi í ljós að íbúar Grindavíkur eru almennt mjög ánægðir með þjónustu og stjórnsýslu í bæjarfélaginu og það er ánægjuefni að sjálfstæðisflokkurinn hafi setið í meirihluta bæjarstjórnar á tímamótum sem þessum. Á stefnuskrá sjálfstæðisflokksins lögðum við áherslu á að halda áfram jákvæðum rekstri bæjarsjóðs og lágmarka álögur á bæjarbúa. Það hefur tekist vel, og er niðurstaða ársreiknings bæjarfélagsins í takt við stefnu okkar.

Endurskipulagning á sundlaugarsvæðinu og frágangur á íþróttasvæðinu var einnig nefnt á stefnuskrá okkar og er sú skipulagsvinna hafin nú þegar. Við bindum miklar vonir við komandi kjörtímabil að fá tækifæri til að hanna sundlaugarsvæðið og íþróttasvæðið í heild með þarfir stækkandi bæjarfélags í huga. Við viljum hugsa stórt og gera stefnu til lengri tíma, setja nýja sundlaug í forgang og skoða kosti og möguleika á fjölnota íþróttahúsi með knattspyrnuvellli í fullri stærð.

Stefnan er að geta boðið framúrskarandi aðstæður og fjölbreytt framboð þegar kemur að heilsueflingu ásamt hreyfingu, sem lið í bættri lýðheilsu allra bæjarbúa.

Stækkandi bæjarfélag

Framtíðin er björt í Grindavík og er fyrirsjáanlegt að bæjarfélagið muni stækka nokkuð á komandi kjörtímabili. Því er mjög mikilvægt að halda vel utan um innviði samfélags okkar Grindavíkinga og styðja við starfsemi og þjónustu í takt við fjölgun íbúa. Meðal annars þarf að horfa sérstaklega til stöðugleika í rekstri, menntastofnana, leikskóla jafnt sem grunnskóla, félagsþjónustu, íþrótta og æskulýðsstarfs og afþreyingu til ungra sem aldna. Þannig náum við árangri og áframhaldandi ánægju íbúa.

Sjálfstæðisflokkurinn í Grindavík óskar eftir stuðningi Grindvíkinga þann 14. maí til áframhaldandi stöðugleika og góðra verka.

Setjum X við D

Hjálmar Hallgrímsson,
Birgitta H. Ramsay Káradóttir,
Irmý Rós Þorsteinsdóttir,
Eva Lind Matthíasdóttir
og Sæmundur Halldórsson,
frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Grindavík.