Aðsent

Eru sveitarfélög að taka ábyrgð?
Föstudagur 5. janúar 2024 kl. 14:25

Eru sveitarfélög að taka ábyrgð?

Í umfjöllun á heimasíðu Suðurnesjabæjar þessa dagana um fjárhagsáætlun og gjaldskrár fyrir árið 2024 má meðal annars lesa eftirfarandi:

„Flestar gjaldskrár sveitarfélagsins hækka um að meðaltali um 7,5% en algengasta hækkunin er á bilinu 6,5% upp í 8,5%, einhverjir liðir hækka þó meira en aðrir liðir minna. Hækkun þessi er í takt við þróun verðlags samkvæmt samþykktum markmiðum fjárhagsáætlunar. Töluverðar breytingar eru á kostnaði við sorpmál en sorphirðu- og sorpeyðingargjald verður hér eftir nefnt sorpgjald og er gjald fyrir hvern úrgangsflokk eftir stærð íláta. Hækkun þessa gjalds er í takt við hækkun almennt hjá nágrannasveitarfélögum Suðurnesjabæjar og er að jafnaði um 30%“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Meiri eyðsla hefur eðlilega í för með sér meiri fjárþörf. Keðjuverkandi áhrif eru auknar lántökur og hækkanir á gjaldskrám og þjónustugjöldum.

Þörf er á hóflegri hækkunum

Á sama tíma og sveitarfélög boða stórfelldar hækkanir, kalla aðilar vinnumarkaðarins eftir mun hóflegri hækkunum sem er nauðsynlegt til að stuðla að lækkun verðbólgunnar. Ég tel að skýring Suðurnesjabæjar á boðuðum hækkunum þyki ekki auðskiljanleg þar sem segir:  „Hækkun þessi er í takt við þróun verðlags samkvæmt samþykktum markmiðum fjárhagsáætlunar“.

Ég veit ekki hvort margir skilja þessa skýringu, en kannski þýðir þetta að nú sé nauðsynlegt að eyða umfram efni.

Af hverju hækka sorpgjöld meira á íbúa en fyrirtæki?

Mér finnst eðlilegt að bæjafulltrúar seti fram betri og skiljanlegri skýringu á boðaða hækkun sorpgjalda, en að vísa til þess „að hækkun þessa gjalds sé í takt við hækkun almennt hjá nágrannasveitarfélögum Suðurnesjabæjar sem sé að jafnaði um 30%“.

Með aukinni flokkun sem bæjarbúar sjá alfarið um heima, verða til seljanleg verðmæti úrgangsins. Má ætla að þessi breyting hefði frekar átt að stuðla að lækkun sorpgjalds frekar en 30% hækkun. Nánast allur úrgangur frá heimilum sem ekki er flokkaður fer til brennslu í Kölku eftir sem áður, væntanlega bara í minna mæli. Spyrja má hver nýtur þá arðsins af aukinni flokkun. Væri ekki eðlilegra að bæjarbúar njóti arðsins frekar en einhver annar.

Boðuð hækkun sorpgjalds um 30% á okkur bæjarbúa er ekki í samræmi við hækkun hjá Kölku á almennri gjaldskrá til fyrirtækja sem var 10% um áramótin, að því er ég best veit. Þess má einnig geta, að gjaldskrá á endurvinnsluplönum Kölku hækkaði ekkert um áramótin.

Aukinn launa- og starfsmannakostnaður vegur þungt

Ef grannt er skoðað, geta sveitarfélög eflaust sparað á ýmsum sviðum. Á síðasta ári vakti athygli þegar sveitarfélagið Árborg sagði upp tæplega 60 starfmönnum úr flestum deildum sveitarfélagsins vegna erfiðrar fjárhagsstöðu. Þetta virtist ekki hafa haft teljandi áhrif á þjónustu eða lögbundin verkefni.

Launa- og starfsmannkostnaður vegur þyngst í rekstri sveitarfélaga og þess vegna er brýnt að stjórnendur fylgist vel með þessum kostnaðarlið og geri reglulega úttekt á starfsmannaþörf og nýtingarhlutfalli. Hver starfsmaður í fullu starfi kostar vart undir 10 til 15 milljónum króna á ári. Í Suðurnesjabæ hefur launa- og starfsmannakostnaður hækkað um 12,5% í hlutfalli við heildartekjur frá sameiningarárinu 2018 samkvæmt upplýsingum úr ársreikningum.

Í Suðurnesjabæ búa um 4000 manns. Starfsmannafjöldi bæjarins (einhverjir í hlutastörfum og leikskólar ekki meðtaldir) er um 300 manns og þar af eru tæplega 150 skráðir starfsmenn í grunnskólum bæjarins þar sem eru um 540 nemendur (1 starfsmaður á ca. hverja 3,6 nemendur). Í ráðhúsum bæjarins í Garði og Sandgerði eru 32 starfsmenn. Aðrir starfsmenn dreifast á aðrar deildir svo sem íþróttamiðstöðvar, tónlistarskóla, umhverfismiðstöðvar o.fl. Hagræðing sameiningar Sandgerðis og Garðs virðist ekki hafa skilað sér nægilega vel hvað varðar launa- og starfsmannakostnað.

Þetta er umhugsunarefni.

Annars bara gleðilegt nýtt ár 2024, með von um betri tíð, lækkandi verðbólgu og engar hættur og skaða af eldgosum og jarðskjálftum.

Jón Norðfjörð