Hs Orka starf
Hs Orka starf

Aðsent

Efnahagsaðgerðir í þágu Suðurnesja
Sunnudagur 3. maí 2020 kl. 10:23

Efnahagsaðgerðir í þágu Suðurnesja

Þegar ráðist er í jafn umfangsmiklar efnahagsaðgerðir og ríkisstjórnin hefur nú gert í tveimur þrepum og stórir atvinnuvegir eins og ferðaþjónustan hafa nær stöðvast er auðvelt að sjá hið smáa en ekki hið stóra. Það er heildarsamhengið sem skiptir máli og hvernig mismunandi aðgerðir spila saman og veita stuðning þar sem hans er þörf.

Þrátt fyrir að margar stærstu efnahagsaðgerðirnar séu ekki merktar tilteknum geirum eða landssvæðum þá er ekki þar með sagt að þær séu ekki hugsaðar til að mæta einmitt þeim. Meginþungi aðgerðanna og tugmilljarðarnir allir fara að langstærstum hluta í sjálfar efnahagsaðgerðirnar, þ.e. hlutastarfaleiðina, lokunarstyrki til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna, brúarlána til atvinnulífs, laun í sóttkví og önnur úrræði af þeim toga. Þessi úrræði nýtast best þar sem þörfin er mest. Þannig er það til dæmis ferðaþjónustan sem hefur að stærstum hluta nýtt sér úrræði stjórnvalda og sömuleiðis hafa atvinnuveitendur á Suðurnesjum getað nýtt sér þau fyrir sitt starfsfólk, eins og kom skýrt fram í Kveik á RÚV nýverið. Þetta sýnir að aðgerðir stjórnvalda virka þótt eðli þeirra og aðstæður sé auðvitað með þeim hætti að ekki geti vakið ánægju hjá nokkrum manni.

Sólning
Sólning

Bæði vörn og sókn

Aðgerðir stjórnvalda miða að því að verja það sem varið verður en líka að nota þennan tíma til að sækja fram. Dæmi um slíka sókn á Suðurnesjum er hlutafjáraukning fyrir fjóra milljarða króna hjá Isavia sem hefur nú úr að spila 7–8 milljörðum króna til að ráðast í framkvæmdir á flugvallarsvæðinu. Það mun skila okkur betri flugstöð til framtíðar. Meiriháttar framkvæmdir og uppbygging eru einnig fyrirhugaðar á öryggissvæðum hjá Landhelgisgæslunni og Atlantshafsbandalaginu á Keflavíkurflugvelli. Þær framkvæmdir sem þegar eru komnar á framkvæmdastig, eða eru á leið í útboð á allra næstu mánuðum, nema um 11,6 milljörðum króna og liggja fjárheimildir að mestu fyrir bæði hjá NATÓ og íslenska ríkinu. Þá ber að líta til þess að ríkið á í viðræðum við Icelandair um þá erfiðu stöðu sem þar er uppi en fjármálaráðherra hefur sagt í fjölmiðlum að starfsemi Icelandair muni ekki leggjast af og ég mun styðja það. Það skiptir ekki síst Suðurnesin máli enda einn allra stærsti vinnuveitandi á svæðinu.

Alls kyns hvatar hafa verið settir inn í aðgerðapakkana til að örva atvinnulífið, m.a. var gildandi heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði hækkuð og útvíkkuð á tímabilinu 1. mars til og með 31. desember 2020. Heimildin var m.a. látin taka til frístundahúsnæðis og samhliða var mannúðar- og líknarfélögum, íþróttafélögum, björgunarsveitum o.fl. veitt heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu manna sem innt er af hendi á byggingarstað við byggingu, viðhald eða endurbætur á mannvirkjum sem alfarið væru í eigu þeirra. Samkvæmt upplýsingum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga er talið raunhæft markmið að sveitarfélög geti ráðist í fimmtán milljarða króna flýtiframkvæmdir til þess að bregðast við efnahagsástandinu, þar af er hægt að ráðast í framkvæmdir fyrir þrjá milljarða á Suðurnesjum. Til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir er nú lagt til að sveitarfélög eða stofnanir og félög sem alfarið eru í eigu þeirra, öðlist tímabundinn rétt til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað vegna byggingar, viðhalds eða endurbóta á öðru húsnæði en íbúðar- og frístundahúsnæði, sem alfarið er í eigu þeirra.

„Með þessum aðgerðum er reynt að sporna við því að um átta þúsund börn um land allt heltist úr tómstundastarfi þegar þrengir að fjárhag fjölskyldna á þessum erfiðum tímum. Þá er gert ráð fyrir 250 milljónum króna til aðgerða á Suðurnesjum.“

Sértækur stuðningur við sveitarfélögin og Suðurnes

Í frumvarpi til fjáraukalaga er lagt til að fjárheimildir málefnasviða verði auknar um samtals 13.210 milljónir króna, þar af um 8,4 milljarð króna í félagslegar aðgerðir þar sem ein fjárheimild lýtur að sértækum stuðningi til sveitarfélaga og Suðurnesja, samtals einn milljarð króna. Þar vegur þyngst tillaga um að verja 600 milljónum króna til sveitarfélaga í því skyni að gera þeim kleift að veita styrki til tekjulágra heimila, þannig að öll börn geti stundað íþróttir og aðrar tómstundir óháð efnahag í sumar. Nýlega veittu stjórnvöld 500 milljónum króna til íþrótta- og æskulýðsstarfs sem tryggja á stuðning við rekstur og starfsemi þeirra aðila sem því sinna. Með þessum aðgerðum er reynt að sporna við því að um átta þúsund börn um land allt heltist úr tómstundastarfi þegar þrengir að fjárhag fjölskyldna á þessum erfiðum tímum. Þá er gert ráð fyrir 250 milljónum króna til aðgerða á Suðurnesjum. Þannig er til dæmis fyrirhugað að styrkja og þróa Reykjanes Geopark og líka að efla félagslega þátttöku og virkni íbúa á Suðurnesjum með erlendan bakgrunn en þeir eru um fimmtungur íbúa. Í fyrri aðgerðarpakka voru veittar 200 milljónir króna til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og því tæpur hálfur milljarður króna eyrnamerktur Suðurnesjum i fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar.

Þrátt fyrir að stjórnvöld noti allt sitt afl til að milda höggið af þeim miklu erfiðleikum sem nú ganga yfir fólk og fyrirtæki er alveg ljóst að hvergi í heiminum verður hægt að stoppa upp í það mikla gat sem myndast í atvinnulífinu þegar stórir, öflugir atvinnuvegirnir leggjast tímabundið í frost. Við verðum að standa saman og efla Ísland með því að ferðast innanlands og beina viðskiptum okkar að íslenskri vöru og þjónustu. Við verðum líka að muna að veiran drepur ekki sterka innviði okkar, hugvit og athafnamennsku. Við bognum um tíma en við brotnum ekki. Saman höfum við sigur þegar upp er staðið.

Ásmundur Friðriksson,
alþingismaður.