Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Ábyrg fjármálastjórn
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 10:44

Ábyrg fjármálastjórn

Það hefur alltaf verið grunnur í starfi mínu í sveitarstjórn að ábyrg fjármálastjórn sé höfð að leiðarljósi, þetta er grunnur framtíðar hvers sveitarfélags. Ef þessi grunnhugsun er ekki til staðar getur illa farið, það er nefnilega auðveldara að eyða en greiða.

Við á D-lista munum sem fyrr fylgja því að gæta aðhalds í rekstri og fjárfestingum en um leið munum við halda áfram að byggja upp bæinn og þjónustuna fyrir íbúana. Við erum að hefja byggingu nýs leikskóla í Sandgerði þar sem byggður verður sex deilda leikskóli en fjórar deildir verða teknar í notkun strax og tvær síðar. Í lok næsta kjörtímabils munum við þurfa að hefja byggingu á nýjum leikskóla í Garði en gert er ráð fyrir honum í nýju skipulagi. Við höfum verið að stækka Gerðaskóla og er sú viðbygging tekin í notkun í nokkrum skrefum. Á komandi kjörtímabili munum við þurfa að huga að stækkun á Sandgerðisskóla og vonandi getum við byggt hann upp á svipaðan máta, stækkað og tekið í notkun í skrefum.

Public deli
Public deli

Við munum nálgast byggingu fjölnota íþróttahúss á sama hátt, við byggjum gervigrasvöll, en gerum ráð fyrir í hönnun hans að hægt sé að byggja yfir hann síðar. Margir spyrja hvers vegna þessi leið sé farin í stað þess að byggja fjölnota hús strax. Svarið við þeirri spurningu er einfalt, við höfum bara ekki efni á því eins og staðan er í dag og tekið er tillit til þeirra framkvæmda sem framundan eru og þeirra fjármálareglna sem sveitarfélag þarf að uppfylla. Það er jú þannig að við getum ekki eytt um efni fram, það kemur alltaf í bakið á okkur ef við gerum það.

Kæri kjósandi, ef þú ert sammála okkur á D-listanum og vilt áfram ábyrga fjármálastjórn sem grunn að framtíð sveitarfélagsins þá biðjum við þig um stuðning á laugardaginn.

Setjum X við D

Einar Jón Pálsson,
forseti bæjarstjórnar og skipar 1. sæti á D-lista.