Public deli
Public deli

Mannlíf

Vill kljást við erfið samfélagsleg mál
Mánudagur 29. júní 2015 kl. 09:51

Vill kljást við erfið samfélagsleg mál

Varð hæst í lögfræði í HR og er á leið til Kaupmannahafnar í meistaranám.

Guðrún Ólöf Gunnarsdóttir Olsen fékk viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur í BA námi í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, við hátíðlega brautskráningu 553 nemenda skólans um liðna helgi. Guðrún ólst upp við Heiðarból og gekk í Heiðarskóla í Keflavík og segir hafa verið gott að búa þar því svo stutt hafi verið í allt. Þaðan lá leiðin í Verslunarskóla Íslands og var Guðrún löngu búin að ákveða að læra lögfræði áður en hún sótti um í HR. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Guðrún ásamt öðrum sem fengu viðurkenningu.

Á lokaárinu í HR ákvað Guðrún að taka tvo meistaraáfanga í staðinn fyrir að skrifa lokaverkefni. „Ég ætlaði mér alltaf erlendis í meistaranám og vissi að þessir áfangar myndir hjálpa mér fyrir lögmannsprófið (hdl - prófið.) Ég tók skuldaskilarétt og alþjóðlegan skattarétt,“ segir Guðrún, sem fékk inngöngu í meistaranám í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla í haust og mun því búa þar næstu tvö árin. Hún segir almenna leigumarkaðinn þar erfiðan en bindur vonir við að fá húsnæði. Í sumar starfar hún á lögfræðistofunni Logos og er að vonum alsæl með að geta starfað við það sem hún stundaði nám við. 

Guðrún og sambýlismaður hennar, Ásgeir Orri. 

Býr með einum stofnenda StopWaitGo

Guðrún býr nú í Kópavogi með unnusta sínum, Ásgeiri Orra Ásgeirssyni, einum stofnenda fyrirtækisins StopWaitGo, sem átti bæði úrslitalögin í undankeppni Eurovision hér á landi. Guðrún stóð vil hlið síns manns í því ferli og segir það hafa verið mjög skemmtilegan og áhugaverðan tíma. „Ferlið byrjaði þegar þeir sendu inn lögin og endaði eftir aðalkeppnina í Vín. Ég áttaði mig ekki á hversu ofboðslega stórt dæmi Eurovision er fyrr en við vorum komin til Vínar. Þótt hlutfallslega horfi flestir á keppnina hér á landi var gríðarlegur fjöldi fólks sem fylgdist með þessu úti.“ Þá segir hún hafa verið magnað að fylgjast með öllu sem fram fór baksviðs líka og lokakvöldið hafi verið draumi líkast. Aðspurð segist Guðrún ekki kvíða fjarbúðinni næstu tvö árin. „Ásgeir fer á vegum síns fyrirtækis oft til Los Angeles í einhverja mánuði svo að við eru vön að vera aðskilin. Stoðir sambandsins eru sterkar.“ 

Horfði heilluð á CSI Miami og slíka þætti

Guðrún hefur lengi haft áhuga á lögfræði og horfði gjarnan á þætti eins og Law&Order og CSI með mömmu sinni og pabba. „Mér fannst svo spennandi að sjá þau leysa öll mál sem koma "vonda fólkinu" í fangelsi og mig langaði að gera það sama og áætlaði að lögfræðingar myndu gera það sem kannski er ekki alltaf raunin,“ segir Guðrún. „Lögfræði tengist svo mörgum þáttum í daglegu lífi, allt frá því að kaupa bíl, gifta sig og ýmislegs annars. Það er svo heillandi við hana.“ Guðrún er staðráðin í, eftir að hafa náð í héraðsdómslögmannsréttindin, að starfa við lögmennsku, málflutning og að kljást við erfið samfélagsleg mál. „Ég hef mestan áhugan á að sérhæfa mig á sviði fyrirtækjaréttar, skattaréttar og Evrópurétti,“ segir hún að lokum.  

VF/Olga Björt