Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Mun Grindvíkingurinn verða fyrsti forsetaherra á Bessastöðum?
Björn og Halla Tómasdóttir á fundi í Keflavík nýlega. VF/Sigurbjörn
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
mánudaginn 6. maí 2024 kl. 08:47

Mun Grindvíkingurinn verða fyrsti forsetaherra á Bessastöðum?

Björn Skúlason selur fæðubótarefnið just bjorn á alþjóðamarkaði en það er unnið er úr þorskroði. Stundaði fótbolta og körfubolta í Grindavík og heillaðist svo af golfíþróttinni.

Björn Skúlason er fæddur og uppalinn Grindvíkingur en hefur búið utan heimahaganna frá því um tvítugt. Árið 1999 urðu straumhvörf í lífi hans þegar hann kynntist eiginkonu sinni, Höllu Tómasdóttur, en það nafn ætti að kveikja á bjöllum hjá sumum, hún býður sig aftur fram til embættis forseta Íslands en minnstu munaði að hún hlyti kjör árið 2016. Þegar Bjössi var í kosningabaráttunni með Höllu árið 2016 var honum bent á fæðubótarefni sem lagaði skrokkinn á honum. Í kjölfarið fæddist viðskiptahugmynd og just björn varð til.

Bjössi sleit barnsskónum í Grindavík og var einn þeirra sem aðhylltist íþróttir og þá aðallega fót- og körfubolta. Hann var ansi efnilegur í báðum greinum en fljótlega varð ljóst að fótboltinn yrði ofan á. Hann byrjaði líka í golfi á upphafsárum íþróttarinnar í Grindavík og lenti einu sinni í ansi skondnu atviki.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Hér um bil draumahögg

„Ég gleymi þessu ekki. Golfvöllurinn í Grindavík var þannig á þessum tíma að fljótlega á hringnum var par þrjú hola og var algerlega blind, þ.e. maður sá ekki boltann lenda. Þetta var í keppni og ég átti gott högg en átti samt ekki von á að ógna draumahögginu. Leifur Guðjónsson var í næsta holli fyrir framan mig, hann sá hvar boltinn lenti, skreið að boltanum og setti ofan í holuna! Við komum og fórum að leita og Leifur tók þátt í leitinni, svo datt mér í hug að athuga hvort boltinn hefði nokkuð farið ofan í. Viti menn, þar var boltinn og þvílík fagnaðarlæti brutust út! „High five“ á alla viðstadda og ég sveif hreinlega um allan hringinn og þegar ég ætlaði stoltur að fara skrifa undir skorkortið að mótinu loknu sagði Leifur mér hið sanna, þvílík vonbrigði!“

Fjölbreyttur starfsferill

Bjössi var ungur farinn að leika með meistaraflokki Grindavíkur í knattspyrnu, var í æfingahópnum þegar liðið komst loksins upp úr gömlu þriðju deildinni og fékk nokkra leiki skráða þegar liðið fór alla leið í bikarúrslit og komst upp í efstu deild árið 1994. Hann á ellefu leiki skráða með Grindavík á fyrsta árinu í úrvalsdeild en ákvað svo að skipta yfir í KR árið 1996 og spilaði eitt tímabil með þeim svartröndóttu. Hann lék með Grindavík það sem eftir lifði knattspyrnuferilsins en frá árinu 1993 til 1996 hafði hann líka leikið knattspyrnu samhliða háskólanámi í Bandaríkjunum.

„Ég fékk háskólastyrk við Auburn Montgomery Alabama og lék með knattspyrnuliði skólans. Þetta var mjög eftirminnilegur og skemmtilegur tími og gaman að fá að upplifa menningarheima sem voru svo gjörólíkir þeim sem ég þekkti frá Grindavík. Þegar ég kom heim hélt ég áfram að spila með Grindavík og árið 1999 urðu kaflaskil í mínu lífi en þá kynntist ég eiginkonu minni, Höllu Tómasdóttur. Ég hafði hitt Höllu áður, þá var hún kærasta liðsfélaga míns en ég heillaðist strax af henni. Við hittumst svo óvænt sjö árum síðar í Eurovision-partýi en þá var Selma að syngja All out of luck, textinn átti alls ekki við um okkur og við felldum hugi saman og höfum verið óaðskiljanleg allar götur síðan.

Upp úr þessu réði mig í vinnu hjá Tryggingarmiðstöðinni, átti svo í fyrirtæki sem hét Birta - vefauglýsingar. Árið 2004 ákváðum við svo að fara til Englands þar sem Halla hóf doktorsnám og ég fór í meistaranám í stjórnunarsálfræði. Í framhaldi af því hóf ég störf hjá Íslandsbanka árið 2007 í eigna-stýringu, fór þaðan yfir til Auður capital sem Halla hafði stofnað ásamt öðrum en hjá Auði Capital komumst við í gegnum hruntímabilið án þess að tapa krónu fyrir viðskiptavini okkar. Árið 2012 ákvað ég að venda kvæði mínu í kross og við fluttum til New York og ég skráði mig í heilsukokkanám í Natural gourmet institute. Að námi loknu fluttum við til Kaupmannahafnar og þar stofnaði ég veisluþjónustu. Þegar við fluttum svo til Íslands árið 2015 réði ég mig í starf hjá Nóatúni og gegndi því þar til Halla ákvað að taka nýjan pól í hæðina,“ segir Bjössi.

Bjössi ungur að árum með félögum sínum úr Grindavík á fótboltaæfingu, hann er annar frá vinstri í miðröð. Til hliðar má sjá Björn með pakka af just björn.

Úr Grindavík á Bessastaði?

Skorað var á Höllu fyrir forsetakosningarnar árið 2016 að bjóða sig fram og eftir gaumgæfilega hugsun ákvað hún að taka slaginn. Í upphafi var varla hægt að sjá að hún væri í framboði, sitjandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson, Andri Snær Magnason og Davíð Oddsson áttu sviðið en Höllu óx ásmegin eftir því sem leið á og vilja sumir meina að ef kosningabaráttan hefði staðið viku lengur hefði hún hreppt hnossið en að lokum endaði hún með tæp 28% atkvæða í öðru sæti. Út frá því bauðst henni einstakt tækifæri.

„Höllu bauðst frábært tækifæri árið 2018 og hún réði sig í starf sem forstjóri The B team eins og það heitir en þetta eru samtök sem eru ekki rekin í hagnaðarskyni og starfa að því að breyta viðteknum venjum og stuðla að nýrri sýn fyrirtækja þar sem áhersla er meðal annars lögð á sjálfbærni, umhverfismál og  jafnrétti. Við fluttum til Bandaríkjanna við þessi tímamót og höfum búið í litlum bæjum það bil klukkustundar akstursfjarlægð frá New York en eigum líka heimili á Íslandi, þannig að við höfum skipt tíma okkar á milli Íslands og Bandaríkjanna. Þegar Guðni forseti gaf út um áramótin að hann myndi ekki sækjast eftir embætti áfram varð strax til þrýstingur á Höllu að bjóða sig fram og hún ákvað að taka slaginn á ný. Hún er í leyfi frá The B team og getur snúið aftur til baka ef við endum ekki á Bessastöðum. Þegar ég hugsa til baka þegar ég bjó í Grindavík, sá ég nú líklega ekki fyrir mér að ég ætti hugsanlega eftir að enda sem fyrsti forsetaherra á Bessastöðum en ef það gerist mun ég ekki láta mitt eftir liggja. Styðja konuna mína en einnig tala fyrir þeim málefnum sem brenna á mér sem eru heilsa, góð næring, hreyfing og almenn lýðheilsa. Auðvitað er ég hlutdrægur en ég veit að Halla mun reynast frábær forseti ef hún nær kjöri. Ég er viss um að hún muni hækka í skoðanakönnunum eftir því sem kappræðum fjölgar en það eina sem hún biður um er að fólk kynni sér alla frambjóðendurna og nýti svo kosningaréttinn. Hún var nærri kjöri árið 2016 og eftir sitt frábæra starf á alþjóðlegum vettvangi fyrir The B team, veit ég að hún mun nýta þá reynslu sína og tengslanet til góðs fyrir íslensku þjóðina ásamt því að leggja áherslu á íslenska tungu, menningu og listir. Ég hlakka mikið til komandi kosningabaráttu en við erum að ferðast vítt og breytt um allt landið þar sem Halla kynnir fyrir hvað hún stendur.“

just björn

Þegar Bjössi var í kosningabaráttunni með Höllu fyrir 2016 kom hann til Grindavíkur og hitti gamla formanninn sinn hjá knattspyrnudeild UMFG, Jónas Karl Þórhallsson. Sá fundur leiddi Bjössa á þann stað sem hann er kominn á í dag.

„Ég var búinn að vera í tómu veseni með líkamann á mér, var búinn að fara í þrjár axlaaðgerðir, var að drepast í baki, hnjám og ökklum. Jónas hvatti mig til að prófa collagen sem er prótein unnið úr þorskroði. Ég hafði engu að tapa og það skipti engum togum, ég varð eins og nýr maður. Ég gat byrjað að æfa á ný, hellti mér út í crossfit og hef ekki fundið fyrir neinu síðan og út frá þessum straumhvörfum fór ég að vinna að viðskiptahugmynd varðandi fæðubótarefni. just björn varð til árið 2021 og fyrsta varan kom á markað í nóvember 2022. Í október í fyrra kom ég vörunni inn á Amazon og tók salan mikinn kipp við það svo ég myndi segja að just Björn sé komið á góða siglingu og ég hlakka mikið til að sjá hvernig framtíð fyrirtækisins mun þróast.

Upphaflega hugmyndin mín var að að kaupa collagenið frá Íslandi og það frá fyrirtæki í Grindavík sem heitir Marine Collagen en þeir áttu erfitt með að útvega vöruna. Fyrst voru erfiðleikar með að þurrka collagenið en þegar þau mál voru að leysast byrjuðu jarðhræringar og svo eldgos við Grindavík. Ég endaði því á að kaupa efnið frá framleiðenda í Noregi. Collagenið er sent út til Bandaríkjanna þar sem ég er með framleiðenda sem blandar og pakkar vörunni fyrir mig og sendir á markað undir vöruheitinu just björn.

Ég er byrjaður að skoða aðrar vörur og er að fara taka inn vöru frá Siglufirði sem unnin er úr rækjuskel. Þetta er trefjavara sem heldur kólesteróli í skefjum og er á allan hátt frábær vara. Ég er að skoða fleiri vörur og myndi segja að framtíð just björn sé björt. Vonandi flytjum við Halla á Bessastaði, það yrði skemmtilegt og spennandi verkefni til að takast á við, en ég hef mikinn áhuga á því að nýta kokka- og næringarfræðinámið mitt til að valdefla og fræða fólk um gott mataræði og næringu ásamt því að vinna að góðri lýðheilsu.

Við Halla eigum tvö yndisleg börn, Tómas Bjartur fæddist árið 2001 og er í háskólanámi í Stony Brook University sem er rétt fyrir utan New York, hann er að læra viðskiptafræði og fékk styrk út á fótbolta eins og pabbi gamli. Auður Ína fæddist árið 2003 og er að læra sálfræði í Hunter College sem er í New York, hún fékk styrk út á námsárangur. Það verður spennandi að sjá hvað börnin okkar munu leggja fyrir sig, ég hlakka til framtíðarinnar,“ sagði Bjössi að lokum.