Mannlíf

Vendipunktur
Fimmtudagur 13. október 2016 kl. 13:57

Vendipunktur

Vendipunktar eru vanmetnir. Hvort sem þeir eru planaðir eða ekki.
 
Ég stend á tímamótum, það hefur orðið vendipunktur í mínu lífi. Ég kannski bjóst ekki við því, bjó mig kannski ekki undir það...en það breytir ekki því að tímamótin eru að verða staðreynd. Breytingar geta verið fyrirkvíðanlegar, stundum ógnvekjandi og eitthvað sem menn reyna að forðast í lengstu lög.  Það er mannlegt - við vitum hvað við höfum og það sem við þekkjum er yfirleitt öruggara en ókannaðar slóðir.
 
Ég hef starfað í stjórnmálum í tæpa tvo áratugi, lifað og hrærst í því dásamlega umhverfi sem stjórnmálin eru með öllum þeim kostum og göllum sem þeim fylgja. Sannarlega í heildina miklu fleiri kostir - en þó nokkrir gallar. Ég hef haft áhrif á samfélagið sem ég bý í en stundum á kostnað þeirra sem ég bý með. Ég hef verið beinn þátttakandi í stærstu viðburðum Íslandssögunnar á undanförnum áratugum, en stundum þannig að ég hef ekki haft tækifæri til að vera þátttakandi í mikilvægum stórviðburðum hjá mínum allra nánustu.  
 
Þannig að í vendipunktum felast tækifæri. Þar eru ýmsar áskoranir, óvissa og áhætta um það sem koma skal. En vendipunktum fylgir líka frelsi. Frelsi til að forgangsraða. Frelsi til að horfa til framtíðar með bjartsýni og krafti. Frelsi til að hafa reynsluna að leiðarljósi, og nota sama frelsið til að horfa til fortíðar með þakklæti og gleði fyrir það sem var.  
 
Og vitið þið hvað - vendipunktar eru vanmetnir.  Þeir hrista upp í manni og ef maður tekur þeim fagnandi verða þeir bara til góðs. Og það er það sem ég hef ákveðið að gera á þeim tímamótum sem ég stend frammi fyrir.  Nú er autt blað fyrir framan mig og mína, blað sem ég ætla mér að skrifa með mínum nánustu.  
 
Kærar þakkir fyrir mig - þessi vendipunktur skal nýttur til hins ítrasta.

Ragnheiður Elín Árnadóttir

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024