Mannlíf

Suðurnesin paradís hjólreiðafólks
Jón Oddur er hjólreiðaþjálfari 3N. Hann gefur góð ráð fyrir hjólasumarið.
Sunnudagur 22. maí 2016 kl. 06:00

Suðurnesin paradís hjólreiðafólks

„Besta leiðin er að finna sér hjólafélaga eða einhvern til að hjóla með,“ segir hjólreiðagarpurinn Jón Oddur Guðmundsson, aðspurður um ráðleggingar til fólks sem er að byrja að stunda hjólreiðar. Þær njóta sífellt meiri vinsælda og nú með hækkandi sól eru margir búnir að taka fram hjólin. Jón Oddur hjólar mikið og þjálfar þríþrautarhóp UMFN í hjólreiðum.

„Síðan er þetta spurning um að gefa sér tíma til að hjóla. Það er eiginlega nauðsynlegt þegar maður er að koma sér af stað, því að þá er maður að brjóta sig frá þessu daglega munstri og er fljótur að finna afsakanir til að sleppa því að fara út að hjóla, maður þarf að snúa þessu við og finna ástæðu og löngun,“ segir hann.
Aðspurður um tæknina við að hjóla segir Jón hana í sjálfu sér svipaða og við lærðum sem börn. Það sem þurfi þó að passa er að vera ekki í of þungum gírum, það sé aðaltæknin. „Að ná um það bil 85 til 95 snúningum með pedalana á mínútu. Þannig þreytist maður seinna og nær að hjóla mun hraðar.“ Jón segir að það að hjóla úti eigi ekki að vera eins og að vera í spinning tíma, þar sem áhersla er mikil á mjög hægt eða mjög hratt. Í hjólreiðum á að vera einhvers staðar þarna á milli.

Margar góðar leiðir á Suðurnesjum
„Suðurnesin eru algjör paradís hjólreiðamanna,“ segir Jón. „Við erum með mjög góðar leiðir, eins og til dæmis hring frá Reykjanesbæ, í Garð og Sandgerði, eða í Hafnir, Ósabotna og Sandgerði. Síðan fyrir þá sem vilja hjóla á möl, þá eru mjög skemmtilegir slóðar á Nickelsvæðinu og út á Fitjum, Hitaveituvegurinn út í Bláa Lónið og gamla Stapaleiðin yfir í Voga.“ Líka er hægt að finna lengri leiðir, eins og á Vatnsleysuströnd eða út á Reykjanesvita og alla leið í Grindavík. Jón segir það eina sem gæti verið að stríða okkur stundum vera hversu oft lognið er að flýta sér. „En þar sem við höfum ekki mikið af brekkum þá getum við notað vindinn til að líkja eftir þeim aðstæðum.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Allir þurfa að taka tillit
Hjólreiðamenn velta því stundum fyrir sér hvort þeir eigi að hjóla á götunni eða á gangstéttinni. Jón segir best að hjóla þar sem fólki líður best og er öruggast. „Þá er ég bæði að tala um hjólreiðafólkið og aðra sem á vegi þeirra verða. Við erum með afspyrnu góða göngustíga í öllum bæjarfélögum á svæðinu. Þeir eru hentugir þegar við erum að byrja og við viljum vera nokkuð örugg. Síðan þegar við erum orðin aðeins öruggari með okkur og farin að auka hjólahraða þá mæli ég með því að nota götuna. Það sem skiptir máli, hvort sem við erum á göngustígum, gangstéttum eða götu, er að við megum ekki eigna okkur það svæði sem við erum á. Við þurfum að taka tillit til þeirra sem eru í kringum okkur, bæði gangandi og akandi vegfarenda, en um leið gerum við þá kröfu að þau taki tillit til okkar, án þess að vera með frekju og yfirgang.“