Mannlíf

Rafmagnaðar raddir Suðurnesjamanna
Föstudagur 20. janúar 2017 kl. 05:55

Rafmagnaðar raddir Suðurnesjamanna

- Tveir rafvirkjameistarar af Suðurnesjum í úrslitum Voice

Suðurnesjamennirnir söngelsku, þeir Tómas Guðmundsson og Arnar Dór Hannesson, eru komnir í 12 manna úrslit í sjónvarpsþáttunum The Voice Ísland. Næstu þrjú föstudagskvöld verða úrslitaþættirnir sýndir í beinni útsendingu í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans. Svo skemmtilega vill til að báðir eru Tómas og Arnar Dór rafvirkjameistarar.

Söngnámskeið vendipunktur

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Tómas Guðmundsson er 38 ára rafvikjameistari og einn eigenda TG-raf í Grindavík og segir þátttökuna í Voice töluvert frábrugðna rafvirkjavinnunni. Hann kveðst þó aldrei syngja í vinnunni. „Ég er rosalega feiminn við að syngja fyrir fólkið í kringum mig og finnst minna mál að syngja á viðburðum,“ segir hann. Keppendur í The Voice Ísland eru í liði dómara keppninnar og er Tómas í liði Svölu Björgvins. Ragga Gísla er aðstoðarþjálfarinn og segir Tómas samstarfið við þær hafa verið mjög lærdómsríkt.

Tómas Guðmundsson er einn eigenda TG-raf í Grindavík en syngur aldrei í vinnunni. Eftir að eiginkona hans gaf honum söngnámskeið í jólagjöf vaknaði söngáhuginn fyrir alvöru. Tómas er nú kominn í  12 manna úrslit í The Voice Ísland þar sem almenningur kýs þá sem komast áfram.

Í gegnum tíðina hefur Tómas glamrað á gítar og sungið með sjálfum sér. „Svo var konan mín orðin leið á að hlusta á þetta mjálm í mér fyrir fjórum árum og gaf mér söngnámskeið í jólagjöf.“ Námskeiðið var hópnámskeið og ein í hópnum bauð Tómasi í prufu í kór. Þá vaknaði áhuginn á söngnum fyrir alvöru og hann sótti fleiri söngnámskeið. Á svipuðum tíma byrjaði hann í grindvísku hljómsveitinni Brimróðri. Þegar Tómas var búinn að læra söng í þrjá mánuði kom hann fram með hljómsveitinni á Menningarvikunni í Grindavík og kveðst Tómas hafa verið að leka niður af stressi. Hljómsveitin sigraði svo í Maggalaga-keppni Rásar 2 árið 2015 með útgáfu sinni af laginu Þorparinn. „Upphaflega ætlaði ég að spila á gítar  í hljómsveitinni en þá kom í ljós að ég var ekkert rosalega góður í því. Þá fékk ég að prufa að syngja og tók svo sönginn að mér.“ Róleg tónlist höfðar betur til Tómasar, lög sem tjá tilfinningar. „Maður er hálfgerð dramadrottning í sér svo ég tengi mest við dramalögin,“ segir hann.

Tómas segir sönginn gefa mikla tilfinningalega útrás. „Í söngnum nær maður að losa um eitthvað sem hvergi annars staðar er hægt, hvorki í ræktinni né annars staðar. Þegar maður finnur að fólk er að tengja við tónlistina, þá gerist eitthvað í loftinu og mér finnst það alveg æðislegt,“ segir hann aðspurður um það hvað söngurinn gefi honum.

Arnar Dór Hannesson er alæta á tónlist en þykir mest gefandi að syngja gospel, sálartónlist og fallegar ballöður. Hann er, líkt og Tómas, kominn í 12 manna úrslit í The Voice Ísland. Þátturinn verður sýndur í beinni útsendingu og geta áhorfendur heima í stofu kosið sinn uppáhalds söngvara.
 

Gæti ekki lifað án tónlistarinnar
Arnar Dór Hannesson er 34 ára og ólst upp í Keflavík en hefur búið í Hafnarfirði undanfarin ár. Hann er rafvirkjameistari og deildarstjóri yfir rafmagnssviði hjá hafnfirska fyrirtækinu VHE. Arnar lærði söng í FÍH og hefur einnig sótt námskeið í Complete Vocal Technique. „Ég fór að rækta sönghæfileikana upp úr tvítugu en mamma segir að ég hafi alltaf verið syngjandi sem barn og þá sérstaklega gömul íslensk dægurlög sem þótti mjög sérstakt en ég er mjög stoltur af því í dag.“ Arnar Dór er alltaf að vinna eitthvað við tónlist, eins og hann orðar það, og kemur reglulega fram í brúðkaupum, jarðarförum, árshátíðum og ýmsum verkefnum, bæði sem sólóisti eða með hljómsveitinni sinni eða gospelkór.

Arnar er í liði Helga Björns í þáttunum. „Hann er mikill reynslubolti í þessu fagi og ég reyni að læra og taka eins mikinn fróðleik frá honum og ég get. Hann leggur sig líka allan í þetta og gefur manni þann tíma sem maður þarf. Hjá honum hef ég fengið ótrúlega góða punkta sem hafa gert mig að betri listamanni.“ Arnar er alæta á tónlist en þykir skemmtilegast og mest gefandi að syngja gospel, sálartónlist og fallegar ballöður með innihaldsríkum texta. „Það sem gefur mér mest við tónlistina og sönginn er að geta gefið sem mest af mér og ef að fólki líkar þá er það frábær tilfinning. Ég gæti í raun ekki verið án tónlistarinnar.“

Söngurinn er ástríða Arnars og segir hann ómetanlegt og ótrúlega gaman að fá að vera með í Voice. „Þessi vegferð í keppninni hefur verið eintóm hamingja og gleði. Það er svo gefandi og þroskandi að kynnast því fólki sem kemur að þessu verkefni. Sama hvort það eru hinir keppendurnir, þjálfararnir eða þeir sem vinna á bak við tjöldin.“

Hér fyrir neðan má hlýða á söng Tómasar og Arnars. Í myndbandinu má sjá og heyra þegar Tómas söng lagið Crazy og heillaði dómara Voice í fyrsta sinn. Í myndabandi Arnars Dórs syngur hann lagið A Song for You við píanó undirleik bróður síns, Helga Hannessonar.

[email protected]