Mannlíf

Kynntist sjómennskunni tíu ára gamall
Föstudagur 1. júní 2018 kl. 06:00

Kynntist sjómennskunni tíu ára gamall

- Hefur verið til sjós í tæp þrjátíu ár

Haukur Guðberg Einarsson, er sjómaður úr Grindavík en hann hefur verið til sjós frá því að hann var sextán ára gamall. Í dag er Haukur skipstjóri á Auði Vésteins sem Einhamar í Grindavík gerir út en hann og áhöfn hans róa frá Stöðvarfirði og eru að heiman í allt að þrjár vikur í senn. Við hittum Hauk á kaffihúsinu Bryggjunni í Grindavík og fengum hann til þess að segja okkur aðeins frá sjómennskunni og fjölskyldulífinu.

Áhöfnin er eins og önnur fjölskylda
Haukur hefur verið til sjós í um þrjátíu ár en að hans sögn brá honum svolítið þegar hann fór að hugsa út í það hversu lengi hann hafi verið á sjó, árið í ár telur hans 29. ár sem sjómaður.
En hvað er það sem heillar við sjómennskuna?
„Það er allt. Það er aldrei neitt eins, að berjast við veðurguðina og að vera með góða áhöfn er stórkostlegt en maður kynnist mönnum inn við beinið þegar maður er á sjó.
Áhöfnin verður önnur fjölskylda manns.“ Haukur segir að það geti tekið á að vera fjarri fjölskyldunni marga daga í senn en hann segir einnig að hann sé heppinn að eiga sterka konu og góða fjölskyldu og það sé mikilvægt. Í dag er Haukur að róa frá Stöðvarfirði. „Ég er í hálfan mánuð til þrjár vikur í burtu og maður gerir alltaf usla þegar maður kemur heim, vill gera allt og konan er kannski ekkert alltaf sammála, rútínan sem hún er búin að koma á fer oftar en ekki út um þúfur.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þrátt fyrir ört stækkandi bæjarfélag þekkja Grindvíkingar hvern annan mjög vel og Haukur segir að það sé ekkert verið að bíða eftir að einhver komi til dyra þegar maður mætir í heimsókn, maður gengur bara inn og spyr hvort það sé til kaffi. „Þannig er þetta líka á Stöðvarfirði, þar þekkja allir alla, bæjarstæðið er lítið og þar er gott fólk sem manni þykir vænt um.“

Haukur horfir út á hafið

Nákvæm veðurspá skiptir máli
Eins og áður hefur komið fram hefur Haukur verið til sjós í 29 ár og segir hann að það hafi orðið miklar breytingar á þessum tæpum þremur áratugum. „Það hefur margt breyst, loðnubátarnir breyttust til dæmis í fjölveiðiskip og stækkuðu, vertíðarbátarnir minnkuðu niður í plastbáta og veiðafærin hafa breyst mikið í gegnum árin. Svo hefur tæknin tekið stakkaskiptum sem við höfum þurft að aðlagast og taka þátt í, annars hefði maður bara þurft að hætta í þessari starfsgrein.“ Íslenskir sjómenn berjast við veðurguðina nánast á hverjum degi og segir Haukur að í dag séu veðurupplýsingar mjög nákvæmar og mikilvægar fyrir þá sem eru til sjós.  „Veðurupplýsingarnar eru til dæmis orðnar það nákvæmar að við erum nánast að vinna með spá sem stenst upp á mínútu og við treystum algjörlega á veðurspána. Hér áður fyrr var allt öðruvísi, þá þurfti maður að hlusta á veðurfréttir, gömlu vindstigin og það munaði kannski sex til átta tímum þegar stormurinn var að skella á, en í dag sjáum við þegar hann kemur upp á mínútu.“

Hér áður fyrr fóru samskipti sjómanna við fjölskyldur sínar í gegnum talstöð, eða „stöðina“, og þurftu sjómenn að passa sig á því sem þeir sögðu. „Ég upplifði það þegar ég var á Grindvíking gamla 606, þá var maður að tala við kærustuna í gegnum stöðina og það heyrði allur flotinn hvað við vorum að segja og þá varð maður að passa sig. En í dag sendir maður bara sms eða hringir úr gemsa og öll samskipti eru mun einfaldari.“

Frá bryggjunni á Stöðvarfirði

Leit upp til sjóarajaxlanna
Haukur ákvað þegar hann var tíu ára gamall að verða sjómaður, hann fór á sjó með Rúnari pabba sínum á skip sem hét Geirfugl, hann var á sjó í tæpa þrjá sólahringa en varð örlítið sjóveikur fyrst um sinn. „Ég var ofboðslega spenntur að fá að fara með, fara á bryggjuna, fara um borð og sigla út og svo man ég þegar við vorum að sigla út úr innsiglingunni þá var svolítill kaldi og ég fór bara í koju. Eftir rúman sólahring kom kokkurinn að ná í mig, gaf mér ís og ég kom allur til. Ég fer upp í brú og lít út um gluggann, horfi niður og mér bregður. Mér varð dálítið um. Ég man þessa tilfinningu ennþá eins og hún hefði gerst í gær. Þegar ég var að sjá þessa sjóarajaxla greiða úr netum, mér fannst þetta magnað en þetta voru heljarmenni í mínum huga og ég man að ég hugsaði að ég ætlaði að verða svona. Þetta situr fast í mér og ég er á þessum stað í dag.“ 

Haukur er í appelsínugula hverfinu í Grindavík

Nú styttist í Sjóarann síkáta hér í Grindavík og þú hefur verið ansi liðtækur í þeirri hátíð, en hvað er skemmtilegast við sjóarann?
„Já, ég hef verið svolítið duglegur að hjálpa til en það er allt skemmtilegt á Sjóaranum síkáta. Þessi hátíð er gríðarlegt batterí og þetta er skemmtilegast fyrir börnin og hvað er skemmtilegra fyrir börnin en að fá fólk út úr húsunum, fara að skreyta og fá að hjálpa til. Hér er golfmót þar sem ræst er út snemma, samtímis af öllum teigum, en það er einmitt passað upp á að það sé snemma svo þú getir átt daginn með fjölskyldunni. Það er fótbolti, körfubolti og fullt af viðburðum á bryggjunni.
Svo er það skrúðgangan sjálf, það er dálítil keppni þar á milli hverfa, við í appelsínugula hverfinu sömdum lag í fyrra en ég vil taka það fram að við höfum sópað að okkur öllum verðlaunum síðustu ár og ég ætla bara að senda og hvetja hin hverfin til að fara að hysja upp um sig,“ segir Haukur og hlær. „Ég hvet alla að mæta, þetta er hátíð fyrir alla, meira að segja Keflvíkinga, það eiga bara allir að mæta á Sjóarann síkáta í Grindavík, engin spurning.“