Mannlíf

Jón Jónsson mætir með hljómsveit í Berg
Þriðjudagur 9. febrúar 2016 kl. 09:30

Jón Jónsson mætir með hljómsveit í Berg

Föstudaginn 15. apríl mun Jón Jónsson stíga á svið í Hljómahöll ásamt hljómsveit sinni. Er þetta í fyrsta sinn sem Jón Jónsson heldur tónleika í fullri lengd í Bítlabænum fagra og því mikil tilhlökkun í hans herbúðum. Í desember seldist upp á tvenna tónleika með Johnny Jay á Græna hattinum á Akureyri og það sama var uppi á teningnum í Austurbæ og því er upplagt að tryggja sér miða í tæka tíð.

Á tónleikum sínum í desember naut Jón Jónsson í fyrsta sinn fulltingis blásturshljóðfæraleikara og þótti það setja skemmtilegan brag á heildarmyndina og því verða þeir ekki skildir eftir heima. Once you go brass you can't go back.

Jón Jónsson gaf út plötuna Heim fyrir jólin 2014 og hafa lög á borð við Gefðu allt sem þú átt, Endurgjaldslaust, Ykkar koma og Heltekur minn hug fengið að óma á útvarpsstöðum landsins. Platan Wait for Fate sló einnig rækilega í gegn þegar hún kom út árið 2011 og er aldrei að vita nema lög eins og Kiss in the Morning, Sooner or Later, Always Gonna Be There og When You’re Around fái að hljóma þann 15. apríl.

Jón Jónsson er þekktur fyrir sína hlýlegu og einlægu sviðsframkomu og því ættu gestir að reikna með notalegri kvöldstund þar sem vel valdir tónar fá að hljóma í bland við ekki svo vel valda brandara.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024