Mannlíf

Hjarta mitt er hér
Laugardagur 8. september 2018 kl. 06:05

Hjarta mitt er hér

Agnieszka Woskresinska er orðinn eigin herra í Sandgerði og elskar Ísland og vinnuna sína

Agnieszka Woskresinska kom hingað til lands aðeins 15 ára gömul til að heimsækja föður sinn á Grundarfirði, Snæfellsnesi árið 1993 en pabbi hennar var einn af fyrstu pólsku innflytjendunum á Íslandi. Foreldrar hennar eru fráskildir en búa samt bæði hér á landi í dag. Agnes eins og hún er ávallt kölluð, ætlaði aðeins að vera hérna í tvær vikur en fór aldrei heim aftur því henni leið strax svo vel á Íslandi. Hún heimsækir aðeins heimalandið sitt gamla á sumrin.

Örugg á Íslandi

Agnes er fædd árið 1978 og hún segir nafnið sitt vera dálítið rússneskt en hún er alin upp í Elk í Póllandi sem er nálægt rússnesku landamærunum. Afi hennar og amma voru tekin til fanga og flutt til Rússlands á sínum tíma í stríðinu, svo saga ættarinnar er aðeins viðburðarríkari en við Íslendingar eigum að venjast.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hún segist hafa upplifað fátækt í uppeldinu heima í Póllandi og fann strax hvað tækifærin voru mörg á Grundarfirði en þar settist hún fyrst að hjá pabba sínum. Næg atvinna, nægur matur og umfram allt, öryggi. Á Íslandi gat Agnes verið örugg á götunum, engir glæpahópar á stjá. Henni fannst Íslendingar mjög vingjarnlegir í viðmóti. Allir tóku henni svo vel. Hún fékk strax vinnu í frystihúsi á Grundarfirði, draumastarfið segir hún og byrjaði að þéna góðan pening. Hún kynntist núverandi eiginmanni sínum einmitt í fiskvinnslu en hann er einnig pólskur og heitir Adam Kondzior, saman eiga þau eina sex ára dóttur sem heitir Lena.

Þegar Agnes flutti til landsins þá vissu Íslendingarnir sem hún umgekkst ekki hvar Pólland væri og héldu alltaf að hún væri frá Portúgal enda er Agnes brún á brá. Saltfiskurinn fór til Portúgals svo þeim fannst rökrétt að hún kæmi þaðan svona brún og sæt. En Pólverjar eru auðvitað alls konar í útliti.

Agnes talar ágæta íslensku. Þegar hún fluttist til landsins voru engin íslenskunámskeið í boði eða orðabækur sem hún gat stuðst við til að læra málið en hún segir Íslendingana sem hún umgekkst hafa kennt sér íslensku. „Þið kennduð mér íslensku!“, segir hún sposk og hlær en hún er afar hláturmild og hress í viðmóti.

Best að vinna í fiski

Hún bjó fyrst á Grundarfirði og fluttist síðan til Patreksfjarðar og þá til Tálknafjarðar en endaði hér á Suðurnesjum og líkar vel við sig í Sandgerði. Hún hefur starfað við fiskvinnslu mestan hluta ævinnar, við afgreiðslustörf í matvöruverslun og á leikskóla. Agnes byrjaði hjá Nýfisk þegar hún flutti til Sandgerðis árið 1999. „Það var frábært að vinna í Nýfisk á þeim tíma, eigendurnir alveg frábærir, draumastaður að vinna á. Draumafyrirtæki fannst mér“, en svo varð hún að hætta að vinna í fiski vegna heilsuleysis. Hún segist samt enn langa að starfa við fiskvinnslu því það sé bæði vel launað og gaman. Alltaf hægt að vinna sig upp, verða betri og læra meira.

Agnes kláraði grunnskólanám í Póllandi áður en hún fluttist til Íslands og hefur stundum langað til að læra meira en fjárhagurinn hefur ekki leyft henni að sleppa því að vinna. Það þarf yfirleitt tvo til að reka heimili, bíl og allt sem fylgir.

Eigin herra í Sandgerði

Í dag starfar Agnes í Skálanum í Sandgerði og leigir þar aðstöðuna af Skeljungi. Hún er eigin herra í fyrsta sinn á ævinni og segist hafa mjög gaman af þessari vinnu. Það er nóg að gera en vinnudagurinn getur verið mjög langur þegar hún stendur ein vaktina frá morgni til kvölds en hún kvartar ekki. „Ég elska þessa vinnu og ég elska einnig að leyfa unglingunum að koma hingað í sjoppuna á kvöldin og hittast! Þetta eru góðir krakkar. Þau eru vinir mínir og haga sér vel þegar við treystum þeim“.

Agnes er íslenskur ríkisborgari í dag og finnst hún vera íslensk því hún hefur verið svo lengi hérna. „Mig langar að vera ein af ykkur. Allar minningar mínar úr æsku tengjast meira Íslandi heldur en Póllandi því ég hef verið svo lengi hérna. Hjarta mitt er hér!“, segir Agnes og tárast þegar hún segir þetta. Henni þykir svo vænt um landið og fólkið í landinu. Hérna fékk hún tækifæri til að lifa góðu lífi og fyrir það er hún mjög þakklát. Heima var aðeins fátækt og basl. Þrátt fyrir mikið myrkur á veturna hérna og mikla birtu á sumrin. Þrátt fyrir mun kaldara sumar á Íslandi en í Póllandi og fábreyttara félagslíf, ekkert baðstrandarlíf á sumrin eða fjölbreytt náttúra og dýralíf. Þrátt fyrir allt þetta langar Agnesi bara að búa á Íslandi því hérna líður henni vel.