Mannlíf

Heldur tónleika á æskuslóðum
Fimmtudagur 20. apríl 2017 kl. 06:00

Heldur tónleika á æskuslóðum

Keflvíkingurinn Arnar Dór í fyrsta skipti í Hljómahöll

Arnar Dór Hannesson er söngvari frá Keflavík sem hefur lengi verið viðloðandi tónlist. Hann hefur víða komið fram en þann 11. maí næstkomandi mun hann halda sína fyrstu sólótónleika í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ. „Mér finnst tilvalið að halda tónleikana á mínum æskuslóðum. Þetta verður mögnuð kvöldstund,“ segir Arnar Dór, en með honum á sviðinu verður einvalalið tónlistarmanna, bæði hljóðfæraleikara og söngvara.

Á dögunum gaf Arnar út lagið „Hittu mig í draumi“, eftir þá Valgeir Magnússon og Hrafnkel Pálmarsson. „Valli hafði samband við mig eftir Voice og sagðist vera með lag fyrir mig. Ég hreinlega féll fyrir því og fannst eins og það væri sniðið fyrir mig,“ segir Arnar, en nýlega lenti hann í öðru sæti í The Voice Ísland. „Þetta samstarf er búið að ganga ótrúlega vel og þetta er búið að vera mikill skóli fyrir mig. Ég er afar þakklátur fyrir þetta allt saman, draumurinn er orðinn að veruleika.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eftir að ævintýrinu í söngkeppninni Voice lauk hefur Arnar verið önnum kafinn í tónlistinni. „Eftir keppnina hef ég einungis náð einni fríhelgi. Ég er búin að vera nánast fullbókaður viku eftir viku. Ég er meira að segja byrjaður að plana mánuðina í kringum öll jólahlaðborðin,“ segir Arnar, en hann tekur að sér að syngja á alls konar viðburðum. „Voice var svakalega skemmtilegt verkefni og það hefur fleytt mér á ógnarhraða áfram í því sem ég elska að gera, að syngja og koma fram. Þessir fáu mánuðir sem þetta tók eru á við mörg ár í reynslu,“ segir Arnar.

Hægt er að nálgast miða á tónleika Arnars á tix.is eða á síðu Hljómahallar, hljomaholl.is