Mannlíf

Hannaði föt sem hún sjálf gæti notað
Þriðjudagur 9. janúar 2018 kl. 05:00

Hannaði föt sem hún sjálf gæti notað

Nemendur sem unnu lokaverkefni í textíl í Fjölbrautaskóla Suðurnesja síðastliðna önn sýndu verk sín í útibúi Landsbankans í Reykjanesbæ á dögunum. Þessi háttur hefur verið hafður á undanfarin ár og hefur textíldeild skólans verið í góðu samstarfi við starfsfólk Landsbankans sem sýnt hefur þessu verkefni mikinn áhuga og stuðning.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Að þessu sinni voru það þær Karen Dögg Vilhjálmsdóttir og Ólöf Edda Eðvarðsdóttir sem sýndu verk sín.
Á heimasíðu Fjölbrautaskóla Suðurnesja kemur það fram að lærdómsríkt sé fyrir nemendur að sýna verk sín opinberlega á þennan hátt. Þá séu svona verkefni einnig liður í því að styrkja samband og samskipti atvinnulífs og skóla.

Karen Dögg Vilhjálmsdóttir segist sjálf elska að vera í þægilegum fötum og að hana hafi langað að hanna föt sem hún sjálf væri til í að nota. Þá segir hún vinnuna á bakvið fatalínuna ekki hafa tekið langan tíma. „Það tók sirka tvo mánuði að sauma fötin og vinnan við lokamöppuna og hugmyndamöppuna tók svo restina af önninni.“ Hún segist hafa ákveðið að læra fatahönnun til að geta bjargað sér sjálf heima fyrir. Fatahönnunin sé þó einungis áhugamál frekar en eitthvað sem hún væri til í að vinna við í framtíðinni. „Ég væri frekar til í að dunda mér heima við að búa til föt, bæði fyrir mig og aðra.“