Fyrsti kossinn, Bláu augun þín og Harðsnúna Hanna

Gunnari Þórðarsyni gerð góð skil í Söngvaskáldum á Suðurnesjum

Bítlabæjarstemning sveif yfir vötnum í Hljómahöllinni þegar fyrstu tónleikarnir í tónleikaröðinni Söngvaskáld á Suðurnesjum fóru fram í síðustu viku. Umfjöllunarefnið á tónleikunum var þekktasta poppskálds Íslands, Keflvíkingurinn Gunnar Þórðarson sem gerði garðinn frægan með Hljómum, Trúbroti og fleiri sveitum.

Húsfyllir var í salnum Bergási í Hljómahöll síðasta fimmtudag þar sem þríeykið Dagný Maggýjar, Arnór Vilbergsson og Elmar Þór Hauksson fluttu skemmtilega og fróðlega söngdagskrá. Eins og undanfarin ár tekur Dagný viðtal við tónlistarmanninn og segir frá því á kvöldinu en félagar hennar sjá síðan um tónlistarflutning og söng.

Það var örugglega mjög erfitt verkefni að velja lög á tónleikana því Gunnar er líklega afkastamesti höfundur landsins. Gestir vildu örugglega Bláu augun þín og Fyrsta kossinn en tónleikarnir opnuðu með því fyrrnefnda í skemmtilegum flutningi þeirra Elmars og Arnórs.

 

Gunnar Þórðarson stofnaði fyrstu íslensku bítlahljómsveitina, samdi fyrsta íslenska bítlalagið sem kom út á plötu og gerði Hljóma vinsælli en dæmi höfðu áður þekkst um. Á tónleikunum var ferli hans gerð góð skil en hann bætti síðan um betur þegar hann tók tvö lög í lokin, annað nýlegt en hitt eldra og þekktara, það var um hana Harðsnúnu Hönnu.

VF smellti nokkrum myndum á tónleikunum.

Gunnar tók tvö lög í lokin, „Í berjamó“ og „Harðsnúna Hanna“.

Gunnar og hluti fjölskyldu hans á fremsta bekk.

Það mátti sjá mörg kunnugleg Keflavíkur- og Suðurnesjaandlit meðal gesta.