Mannlíf

Framhaldsprófs- og burtfarartónleikar tveggja nemenda
Fimmtudagur 23. apríl 2015 kl. 10:00

Framhaldsprófs- og burtfarartónleikar tveggja nemenda

Tveir nemendur við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar.

Tveir nemendur við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar halda framhaldsprófs- og burtfarartónleika sína á næstu dögum. Þriðjudaginn 28. apríl kl.19.30 mun Ína Dóra Hjálmarsdóttir, söngnemandi, halda tónleika í Stapa, Hljómahöll. Ína Dóra hefur stundað söngnám við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar undanfarin ár en áður hafði hún lokið diploma-prófi til kennsluréttinda frá Listaháskóla Íslands. Hún leggur samhliða söngnáminu, stund á nám í Suzuki-blokkflautukennslu undir handleiðslu Nancy Daly auk þess sem hún hefur sótt fjölda námskeiða í tónlist. Ína Dóra hefur kennt tónfræðagreinar og forskóla um árabil við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og hún er félagi í Kvennakór Suðurnesja. Ína Dóra hefur komið fram á fjölda tónleika á vegum Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og tekið þátt í ýmsum viðburðum á vegum skólans.

Söngkennari Ínu Dóru er Bylgja Dís Gunnarsdóttir.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Fimmtudaginn 30. apríl kl. 20.00 mun Sigrún Lína Ingólfsdóttir, söngnemandi, halda tónleika í Bergi, Hljómahöll. Sigrún Lína hefur stundað söngnám við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar í nokkur ár og komið fram á fjölda tónleika og öðrum viðburðum á vegum skólans. Sigrún Lína er félagi í kór Keflavíkurkirkju og hefur m.a. verið einsöngvari með kórnum.

Söngkennari Sigrúnar Línu er Dagný Þórunn Jónsdóttir.

Meðleikari á báðum þessum tónleikum er Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanóleikari, en auk þess mun Díana Lind Monzon, gítarleikari, leika með Ínu Dóru í einu verki.

Aðgangur er ókeypis og allir hjartanlega velkomnir.