Íþróttir

Vaknar eldsnemma til þess að taka aukaæfingar
Fimmtudagur 25. október 2018 kl. 09:31

Vaknar eldsnemma til þess að taka aukaæfingar

Viðtal: Fimmtán ára í forystuhlutverki

Hin 15 ára gamla Vilborg Jónsdóttir hefur vakið athygli fyrir vasklega framgöngu með Njarðvíkingum í 1. deild kvenna í körfubolta. Leikstjórnandinn leiðir liðið í stoðsendingum og stigum það sem af er tímabilinu. „Það var talað um að ég þyrfti að vera í stóru hlutverki en ekki alveg svona, þetta er frekar skrýtið allt saman,“ segir Vilborg sem er að spila um 30 mínútur í leik. Hún byrjaði að æfa með meistaraflokki í sumar sem hjálpaði henni í að kynnast hópnum. Hún er fædd árið 2003 og er yngst, ásamt fjórum öðrum, í liðinu. „Ég var alveg vel stressuð í fyrsta leik. Eftir tvær mínútur lagaðist þetta og varð bara eins og hver annar leikur,“ en Njarðvíkingar hafa unnið tvo leiki og tapað einum á tímabilinu.

Vaknar eldsnemma til þess að taka aukaæfingar

Frá því í sjöunda bekk hefur Vilborg verið að mæta tvisvar í viku á morgunæfingar frá klukkan sjö til átta á morgnana, undir handleiðslu Loga Gunnarssonar. Fjöldi yngri iðkenda sækja þessar æfingar og njóta góðs af. „Mér finnst þessar æfingar gera mikið fyrir mig. Þar er verið að skjóta og drippla, maður getur alltaf bætt þessi grunnatriði. Logi segir okkur hvað þessar aukaæfingar skipta okkur miklu máli. Ég finn það vel núna þegar ég er að stíga fyrstu skrefin mín í meistaraflokki,“ segir leikmaðurinn efnilegi.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Njarðvíkurliðið er mjög ungt en Vilborg telur möguleika á að gera vel í vetur. Mikið uppbyggingarstarf er í gangi hjá félaginu og stefnir Vilborg á að taka þátt í því. Foreldrar hennar eru uppalin hinum megin við lækinn en hún og systkini hennar eru grjótharðir Njarðvíkingar. „Ég fæ að heyra það frá frændfólki mínu eiginlega í hvert skipti sem ég hitti þau, hvort ég ætli nú ekki að koma mér í bláan búning? Það er ekki á dagskránni,“ segir Vilborg sem er spennt fyrir því að spila háskólabolta en ætlar sér þó að klára grunnskóla áður en framtíðaráformin verða ákveðin.