Keflavík tapaði fyrir sterku liði Blika
Besta deild kvenna í knattspyrnu fór af stað í gær og Keflvíkingar hófu leik í Kópavogi þar sem sterkt lið Breiðabliks tók á móti þeim. Keflavík þurfti að sætta sig við tap í fyrsta leik sem endaði 3:0 fyrir Breiðabliki.
Liðunum tveimur er spá misjöfnu gengi í sumar, Breiðablik hefur á að skipa gríðarlega sterku liði og er spáð öðru sæti deildarinnar á meðan Keflavík er spáð falli.
Það tók Blika tuttugu mínútur að brjóta vörn Keflavíkur á bak aftur en fram að fyrsta markinu var nokkuð jafnt á með liðunum. Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði þá eftir góða stungusendingu inn fyrir vörn Keflavíkur (20'). Vígdís Lilja var svo aftur á ferðinni skömmu eftir hálfleik (50') og Agla María Albertsdóttir innsiglaði sigurinn með þriðja marki Blika tuttugu mínútum fyrir leikslok (70').
Fyrsti heimaleikur Keflavíkur verður leikinn á laugardag þegar Stjarnan kemur í heimsókn á gervigrasið við Nettóhöllina.