Íþróttir

Snæfell Íslandsmeistarar 2015
Snæfellskonur fagna titlinum fyrr í kvöld- mynd: karfan.is
Mánudagur 27. apríl 2015 kl. 22:43

Snæfell Íslandsmeistarar 2015

Sópuðu Keflavík í lokaúrslitum 3-0

Snæfell frá Stykkishólmi varð í kvöld Íslandsmeistari í körfubolta í úrvalsdeild kvenna eftir spennusigur á Keflavík, 81-80.

Bekkurinn var þétt setinn í Fjárhúsinu í kvöld og ljóst að það átti að halda uppá Íslandsmeistaratign og ekkert minna. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Heimakonur í Snæfelli leiddu nær allan leikinn í kvöld og höfðu yfir í hálfleik 45-35. Athygli vakti að Carmen Tyson Thomas hafði ekki skorað eitt einasta stig í liði Keflavíkur í fyrri hálfleik, en stúlkan hafði dregið vagn Keflavíkurliðsins alla úrslitakeppnina.

Keflvíkingar gerðu hvað þær gátu til að brúa bilið á milli liðanna í síðari hálfleik en Snæfellingar voru alltaf skrefinu á undan. Sara Rún Hinriksdóttir fór mikinn fyrir Keflavík og endaði leik með 31 stig í lokaleik sínum fyrir Keflavík í bili. 

Snæfell hélt út þrátt fyrir hörkuspennandi lokamínútur og eru því Íslandsmeistarar árið 2015 og sópuðu einvígið, 3-0. 

Kristen Denise McCarthy var stigahæst í liði Snæfells með 24 stig og Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 17 stig.

Hjá Keflavík var Sara Rún Hinriksdóttir allt í öllu og skoraði 31 stig og þá skoraði Bryndís Guðmundssóttir 13 stig og tók 13 fráköst. 

Við óskum Íslandsmeisturum Snæfells til hamingu með Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta og eru þær vel að titlinum komnar.