Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Íþróttir

Pistill frá Jóhanni Birni Keflavíkurþjálfara: 17 heimamenn hafa spilað í ár
Þriðjudagur 28. júlí 2015 kl. 16:13

Pistill frá Jóhanni Birni Keflavíkurþjálfara: 17 heimamenn hafa spilað í ár

Kæru Keflvíkingar!
Nú blæs svo sannarlega ekki byrlega í seglin hja okkur í fótboltanum. Þegar við hófum undirbúningstímabilið í janúar átti ég alls ekki von á því að þetta yrði staðan þegar mótið væri hálfnað, hvað þá að ég ætti eftir að vera þjálfari liðsins ásamt mínum besta vini, Hauki Inga. Ég ætla nú ekki að fara að rifja allt tímabilið upp enda væri það ekki upplífgandi. Ég get fullvissað ykkur um að það vill enginn leikmaður, þjálfari eða stjórnarmaður vera í þeirri stöðu sem við erum komnir í. Ég veit líka vel að stuðningsmenn hafa litla ánægju af henni, segir Jóhann Birnir á stuðningsmannasíðu Keflavíkurliðsins í Pepsi-deildinni í knattspyrnu.

Ljóst er að margt má betur fara. Fótbolti er flókin fræði þó að leikurinn virðist gjarnan vera nokkuð einfaldur. Naflaskoðun er eitthvað sem við höfum stundað undanfarnar vikur og á því verður ekkert lát.
Í Keflavíkurliðinu núna hafa 17 uppaldir strákar af svæðinu spilað með liðinu í ár. 17 strákar sem eiga fjölskyldur sem búa hér. Það þarf enginn að segja mér að Keflavíkurliðið hafi ekki ástríðu fyrir félaginu sínu, vilji ekki veg þess sem mestan, svíði ekki gengi þess. Það hefur aftur á móti lítið gengið upp og oftar en ekki hefur boltinn farið stöngina út í stað þess að fara stöngina inn hjá okkur. Þegar lítið gengur upp dvínar sjálfstraust leikmanna og menn fara að breyta sinni venjulegu hegðun. Leikmenn þora ekki lengur að taka af skarið sóknarlega og varnarlega og verða fyrir vikið ekki eins góðir og þeir eiga að geta verið. Við vitum þó öll hvað í þeim býr. Í þeirri stöðu sem við erum komnir í núna er augljóst að við þurfum á einhvern hátt að breyta samsetningunni í liðinu. Við höfum núna fengið til liðs við okkur nýja erlenda leikmenn sem við teljum að henti vel að okkar hugmyndafræði. Þessu fylgir að sjálfsögðu einhver kostnaður og margt sem þarf að hafa í huga þegar erlendir leikmenn koma til okkar. Fólkið í kringum félagið hefur staðið sig mjög vel í þessu ferli og finnum við fyrir miklum stuðningi í þeim efnum.
Núna þurfum við aðstoð frá ykkur.

Það hafa gengið á skin og skúrir í fótboltanum hjá okkur á síðustu árum. Árið 2008 verður okkur alltaf minnisstætt af mörgum ástæðum. Titillinn var í augsýn og stuðningurinn bakvið liðið var sá allra besti á landinu. Það var þegar Pumasveitin var upp á sitt besta. Má segja að hún hafi sett standardinn fyrir Tólfuna, Silfurskeiðina og hvað þær heita allar þessar stuðningsmannasveitir. Ég minntist þessara gömlu tíma þegar við spiluðum við Leikni um daginn. Leiknisljónin, stuðningsmannasveit þeirra, studdi liðið sitt allan tímann. Þetta hefur ótrúlega mikið að segja. Gjarnan er sagt að svona stuðningur sé á við tólfta manninn. Ég er ekki frá því. Það væri gaman ef við myndum ná að búa til svipaða stemmingu í þeim leikjum sem eftir eru. Byrjum á því í dag.

Við erum Keflvíkingar, erum ekki þekktir fyrir það að gefast upp og ætlum ekki að fara að byrja á því núna.

Með baráttukveðju og áfram Keflavík,

Jóhann Birnir

Public deli
Public deli