Íþróttir

Myndasafn frá úrslitaleik Maltbikarsins
Fimmtudagur 18. janúar 2018 kl. 11:41

Myndasafn frá úrslitaleik Maltbikarsins

Keflavík varð Malt-bikarmeistari kvenna í körfubolta sl. laugardag þegar liðið lagði nágranna sína úr Njarðvík í úrslitaleik í Laugardalshöllinni.
Leikurinn var jafn framan af en í fjórða leikhluta komst Keflavík fram úr Njarðvík og sigruðu að lokum með ellefu stiga mun og voru lokatölur leiksins 74-63. Þetta er fimmtándi Bikarmeistaratitill Keflavíkur en liðið er það sigursælasta í kvennakörfunni.

Ungu stelpurnar stigu upp
„Þetta er geggjuð tilfinning, alveg hreint, leikurinn var ekki auðveldur en Njarðvík er búið að spila ótrúlega vel í bikarkeppninni, þær hafa komið á óvart og við vissum það alveg að við gátum ekkert verið að vanmeta þær,“ sagði Thelma Dís Ágústdóttir, leikmaður Keflavíkur, í samtali við karfan.is eftir leikinn. „Við vorum að spila ágæta vörn en Kaninn þeirra skoraði mikið af stigum en við náðum að halda hinum í lágmarki.“
Meiðsli og veikindi voru í herbúðum Keflavíkurliðsins fyrir leikinn en Thelma sagði að ungu stelpurnar í liðinu hefðu sýnt karakter og stigið upp þegar þörf var á.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eltu mest allan leikinn
Stelpurnar í Njarðvík voru hnígjafnar meisturunum stóran hluta leiksins en liðin gengu inn í klefa í hálfleik, jöfn að stigum. Lið Njarðvíkur hefur ekki enn sigrað leik í Domino´s deildinni og er þetta því góður árangur hjá þeim og mun reynsla bikarkeppninnar án efa nýtast í það sem eftir er af deildinni.
Björk Gunnarsdóttir, leikmaður Njarðvíkur, sagði í samtali við karfan.is eftir leikinn að tapið hefði verið mjög sárt. „Við vorum alveg í þessu, það var jafnt í hálfleik en þær höfðu heppnina með sér í dag og settu niður skotin sín. Við vorum svolítið að elta mest allan leikinn og ég veit eiginlega ekki hvað fór úrskeiðis. Við munum nýta þessa reynslu hér úr höllinni til að klára tímabilið og eigum eftir að klára nokkra leiki núna á þessu ári, reynslunni ríkari.“

Stuðningsmennirnir klúbbnum til sóma
Embla Kristínardóttir var maður leiksins en hún átti stórleik hjá Keflavík og skoraði tuttugu stig. Embla sagði í samtali við Víkurfréttir að hún sé ótrúlega ánægð með það að vera komin heim aftur og að liðsandinn í liðinu sé mjög góður enda séu þær flestar búnar að spila lengi saman. „Við lögðum upp með að mæta tilbúnar í bikarleikinn og vera fókusaðar, við ætlum  að halda áfram að spila eins og við erum búnar að gera síðustu leiki og bæta í.“ Embla segir einnig að það hafi verið ótrúlega sætt að vinna þennan titil fyrir Keflavík og verja hann. „Ég er nýkomin í liðið og að vinna titil strax er bara magnað.“

Stuðningsmenn Keflavíkur létu í sér heyra á leiknum og segir Embla að stuðningur þeirra skipti alltaf máli. „Það var geggjað að sjá alla sem mættu að hvetja okkur og ég er mjög þakklát fyrir allan stuðninginn sem við fengum, frábærir stuðningsmenn sem voru klúbbnum til sóma.“

Meðfylgjandi myndir tók Hildur Björk Pálsdóttir.

Maltbikarinn 2018