Íþróttir

Körfuboltinn að hasla sér völl í Garðinum
Þau Óli Garðar og Bára sjá um að miðla körfuboltaþekkingu til ungviðisins í Garðinum.
Mánudagur 23. nóvember 2015 kl. 09:31

Körfuboltinn að hasla sér völl í Garðinum

Garðurinn hefur ekki beint verið kenndur við körfubolta í gegnum tíðina. Sveitafélagið hefur alið af sér knattspyrnufólk í fremstu röð og Garðbúar ylja sér við minningar frá gulldrengjunum sem spiluðu í efstu deild á níunda áratug síðustu aldar. Körfubolti er þó að skjóta rótum í bæjarfélaginu og eru nú um 30 krakkar að æfa sig af fullum krafti fyrir Nettómótið vinsæla. Síðustu tvö ár hefur verið haldið námskeið í Garðinum áður en Nettómótið fer fram. Iðkendur eru frá 3.-6. bekk, núna er 15 strákar og 15 stelpur að æfa og enn er að bætast við. Á mótinu má því búast við Víðisbúningum og vöskum keppendum úr Garðinum.

„Mér finnst vera mjög mikill áhugi og ég held að það séu allir rosalega ánægðir með þetta framtak,“ segir Bára Bragadóttir sem sér um þjálfun krakkanna ásamt Óla Garðari Axelssyni sem kom æfingum á laggirnar. Bára er uppalin í Garðinum en hún kynntist sjálf körfubolta þegar hún var 12 ára gömul. „Þá var Gunnar Einarsson Keflvíkingur að kenna okkur leikfimi um tíma og lét okkur spila körfubolta. Þá kviknaði áhuginn hjá mörgum og við fórum nokkrar stelpur að æfa körfubolta eftir það.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bára fór að æfa með Keflavík og náði frábærum árangri á ferli sínum þar. Hún var valin í unglingalandslið margsinnis og vann titla með yngri flokkum og meistaraflokki. „Þetta var mikið ævintýri. Ég ferðaðist m.a. til Eistlands og Ítalíu með landsliðinu. Við urðum Norðurlandameistarar og höfnuðum í öðru sæti á Evrópumótinu. Þetta var skemmtilegur tími.“ Bára þakkar móður sinni fyrir að gera sér það kleift að sækja æfingar á sínum tíma. „Það var enginn strætó á þeim tíma og því var gott að eiga góða mömmu sem skutlaði mér og sótti mig mörgu sinnum í viku á æfingar.“

Sér eftir því að hafa hætt snemma

Bára ásamt Ingibjörgu Elvu Vilbergsdóttur hafa náð hvað bestum árangri Garðbúa í körfuboltanum en þær byrjuðu að æfa á sama tíma. Bára með Keflavík og Ingibjörg með Njarðvík. „Það skildi enginn af hverju við fórum í sitt hvort liðið. Fjölskyldan hennar er þó úr Njarðvík og ég hélt alltaf með Keflavík.“ Ingibjörg lék um tíma með Njarðvík en þær Bára spiluðu svo saman í Keflavík frá árinu 2004. Bára hætti í körfuboltanum árið 2008 þá rétt orðin tvítug. „Ég held að ég sjái pínulítið eftir því að hafa hætt svona snemma. Það var svo mikið fjör í kringum þetta og það var mikil velgengni þegar maður var að byrja í meistaraflokki.“ Hún segir það dálítið freistandi að taka fram skóna aftur. „Við Ingibjörg vorum bara að ræða það um daginn hvað okkur langaði að byrja aftur, skildum ekkert í okkur að hafa hætt,“ segir hún létt í bragði.

Bára segist vel geta hugsað sér að þjálfa áfram eða koma nálægt körfuboltanum aftur með einhverjum hætti. „Ég hef rosalega gaman af þessu og skil ekkert í mér að hafa ekkert verið meira í kringum þetta.“

Æft er tvisvar í viku í Garðinum fram að Nettómóti sem fram fer í mars og vonandi lengur að sögn Báru „Þetta er allavega byrjunin og það væri gaman að byrja fyrr næsta vetur og hafa meira skipulag í kringum þetta. Það yrði ekki leiðinlegt ef körfuboltinn næði að festa rótum í Garðinum,“ segir Bára að lokum.