Íþróttir

Keflvíkingar enduðu sem silfurdrengir
Laugardagur 23. september 2017 kl. 17:24

Keflvíkingar enduðu sem silfurdrengir

Keflvíkingar þurfa að sætta sig við 2. sæti og silfurpening í Innkasso-deildinni í knattspyrnu. Lokaumferðin var leikin í dag. Keflvíkingar þurftu sigur til að vera öruggir með toppsæti deildarinnar. Þeir áttu í harðri baráttu við Fylki um toppsætið en fyrir leiki dagsins var Keflavík með eins stigs forskot á Fylki á toppnum. Það fór hins vegar þannig að Keflvíkingar töpuðu fyrir HK í Kórnum í Kópavogi. Á sama tíma vann Fylkir sigur á ÍR-ingum.

Keflvíkingar byrjuðu betur og komust yfir í viðureigninni strax á 14. mínútu með marki sem Leonard Sigurðsson skoraði eftir stoðsendingu frá Lasse Rise. Þannig var staðan alveg þar til undir lok fyrri hálfleiks þegar HK jafnaði. Sindri markvörður hélt boltanum illa og eftir smá klafs kom Eiður Gauti Snæbjörnsson knettinum í hetið fyrir heimamenn og jafnaði leikinn.

Seinni hálfleikur var járn í járn en heimamenn tryggðu sér sigur í leiknum með hjólhestaspyrnu Bjarna Gunnarssonar. Sama hvað Keflvíkingar reyndu að skora, þá gerðist lítið.

Í leikslok fengu Keflvíkingar silfurpening KSÍ til staðfestingar á 2. sætinu í Inkasso-deildinni í ár. Keflavík leikur í Pepsi-deild að ári.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024