Íþróttir

Grindvíkingar ánægðir með Alfreð í Meistaradeildinni
Hér er Alfreð í landsliðsbúningi 21 árs liðsins með gömlum félögum úr Grindavík, þeim Jósef K. Jósefssyni og Óskari Péturssyni.
Miðvikudagur 30. september 2015 kl. 13:55

Grindvíkingar ánægðir með Alfreð í Meistaradeildinni

Alfreð Finnbogason  er fyrsti Grindvíkingurinn til að leika og skora í meistaradeildinni í knattspyrnu. Alfreð skoraði sigurmark Olympiakos gegn Arsenal í gærkvöldi þegar liðið lagði Lundúnaliðið 2-3 í spennnandi leik.
Alfreð fór til gríska liðsins að láni í sumar eftir ársdvöld hjá Real Sociedad á Spáni.
„Maður veit ekkert hvað maður fær mörg færi til að skjóta. Það verður bara að láta vaða,“ segir Alfreð við visir.is. „Ég hitti hann ekki alveg eins og ég ætlaði,“ bætir húmoristinn þó við og hlær. „Það er svolítið eins og gríska landsliðið sé að spila þegar Olympiakos er að spila í Meistaradeildinni. Félagið er stolt þjóðarinnar í Meistaradeildinni og mikil umfjöllun,“ segir Alfreð afar sáttur með áhorfendurna 2500 sem studdu vel við bakið á Alfreð og félögum.

Aðspurður um hvort það sé ekki viss léttir að vera búinn að skora fyrsta markið fyrir félagið og komast í uppáhald hjá stuðningsmönnunum heldur Alfreð ró sinni:
„Ég kom hingað í þeim tilgangi að spila og þjóna liðinu. Þetta er klárlega einn af stærstu útisigrum félagsins í Meistaradeild og nú er bara að fylgja því eftir,“ segir framherjinn og minnir á að framundan eru tveir erfiðir leikir gegn Dynamo Zagreb í riðlakeppninni.

Grindvíkingar eiga talsvert í Alfreð enda var hann í yngri flokkum UMFG fram undir fermingu þegar hann flutti til Reykjavíkur en þar lék hann með Fjölni og síðar Breiðabliki.

„Alfreð var strax mikið efni og hefur alla tíð verið með markmið sem hann setur sér,“ sagði Jónas Þórhallsson formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hér er Alfreð með Óskar, Jósef og fleiri góðum Grindvíkingum, ungir að árum. Alfreð er við hlið Óskars markvarðar til vinstri á myndinni.


Hér má sjá mark Alfreðs og heyra lýsingu Harðar Magnússonar á Stöð 2 sport.

Hér er Alfreð í viðtali við sænskan fréttamann eftir leikinn í Englandi.