Íþróttir

Grindavíkurstúlkur farnar í sumarfrí
Kristen Denise McCarthy hefur reynst Grindavíkurstúlkum erfiður ljár í þúfu. - mynd: karfan.is
Fimmtudagur 16. apríl 2015 kl. 20:37

Grindavíkurstúlkur farnar í sumarfrí

Keflavík og Snæfell leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn

Snæfell frá Stykkishólmi tryggði sér í kvöld sæti í lokaúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta þegar liðið lagði Grindavíkinga örugglega í Röstinni í 4. leik liðanna. Lokatölur urðu 56-71.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn betur og komust í 9-4 í fyrsta leikhluta en Snæfellsstúlkur réttu úr kútnum fyrir lok fyrsta leikhluta og stóðu leikar 11-10 fyrir heimakonur.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Snæfell gaf allhressilega í í 2. leikhluta á meðan lítið gekk upp hjá Grindavík. Munaði mikið um að Grindvíkingar misnotuðu aragrúa af skotum og Snæfell leiddi með 11 stigum í hálfleik, 23-34.

3. leikhluti var sveiflukenndur þar sem að bæði lið tóku sínar skorpur án þess að Grindavík næði að komast ofan í hálsmálið á gestunum sem leiddu með 13 stigum áður en lokaleikhlutinn hófst, 40-53.

Grindavíkurstúlkur reyndu hvað þær gátu að komast aftur inn í leikinn í síðasta fjórðungi en það var eins og liðinu væri fyrirmunað að snúa taflinu sér í vil á meðan Snæfell spilaði af skynsemi úr þeirri stöðu sem að komin var upp. Þegar 3 mínútur lifðu leiks var munurinn 15 stig og ljóst að það eina sem gæti komið heimastúlkum aftur inn í leikinn væri algjör kúvending á þeirra leik. Sú óskhygja rættist ekki og Snæfell sigldi öruggum sigri heim og hafa því sigrað einvígið með þremur leikjum gegn einum.

Pálína María Gunnlaugsdóttir var stigahæst í liði Grindvíkinga með 19 stig og 8 fráköst og þá skoraði Kristina King 12 stig og hefur oft leikið betur eins og nánast allt Grindavíkurliðið.

Hjá Snæfelli var Kristen Denise McCarthy atkvæðamest með 25 stig og 11 fráköst og Hildur Sigurðardóttir splæsti í smekklega tvennu, 12 stig og 12 fráköst.

Þar með hafa bikarmeistarar Grindavíkur lokið keppni þetta tímabilið en liðið átti fullt erindi í Snæfellsliðið í fyrstu þremur leikjunum en hittu á afar slæman leik í kvöld. 

Sverrir Þór Sverrisson hefur því stýrt Grindavíkurliði í síðasta sinn í bili, en hann hefur gefið það út að hann komi ekki til með að þjálfa á næsta tímabili.

Snæfell mun mæta Keflavík í lokaúrslitum Íslandsmótsins og hefst sú sería í Stykkishólmi miðvikudaginn 22. apríl.