Andri með tvö mörk í 4-3 sigri Grindvíkinga

Markahrellirinn Andri Rúnar Bjarnason skoraði tvö mörk í 4-3 sigri Grindvíkinga á Breiðabliki á Grindavíkurvelli í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í dag. Grindvíkingar eru í 5. sæti deildarinnar þegar tvær umferðir eru eftir.

Gestirnir komust yfir í leiknum strax á 4. mín. þegar Aron Bjarnason skoraði fyrir Blika. Hinn eitilharði Gunnar Þorsteinsson jafnaði fyrir heimamenn á 15. mín. og síðan komu tvö mörk frá Andra Rúnari á 30. og 43. mín. og staðan í hálfleik 3-1.
Gestirnir voru ekkert á því að gefa eftir og minnkuðu muninn í 3-2 með marki Hrvoje Rokic úr víti á 52. mín. Leikurinn var í járnum fram að lokakaflanum þegar heimamenn komust í 4-2 þegar Blikar skoruðu sjálfsmark. Gestirnir minnkuðu svo muninn í 4-3 þegar Gísli Eyjólfsson skoraði fyrir Blika á 90. mín. Lokatölur í fjörugum leik 4-3 fyrir Grindvíkinga.

Andri Rúnar er núna aðeins marki frá markameti deildarinnar og hann fór yfir mörkin og leikinn í viðtali við fotbolta.net sem er með veglega umfjöllun um leikinn.