Fréttir

Vilja að hægt verði að panta pláss á tjaldsvæði Grindavíkur
Frá tjaldsvæðinu í Grindavík. Umhverfis- og ferðamálanefnd vill að rekstur þess verði líkari rekstri á gistiheimili.
Mánudagur 16. janúar 2017 kl. 09:47

Vilja að hægt verði að panta pláss á tjaldsvæði Grindavíkur

Fulltrúar í Umhverfis- og ferðamálanefnd Grindavíkur vilja að tjaldsvæði bæjarins verði skipt upp í reiti og þeir merktir. Þannig fái hver gestur aðeins fyrirfram ákveðið svæði, sem hann greiði fyrir. Í fundargerð nefndarinnar frá 11. janúar síðastliðnum segir að fyrirkomulagið bjóði upp á að hægt verði að bóka gistingu fyrirfram líkt og margir erlendir gestir hafi óskað eftir. Nefndin telur að endurskoða þurfi rekstrarfyrirkomulag tjaldsvæðisins með það fyrir augum að auka tekjur þess.

Í fundargerðinni kemur einnig fram að undanfarin ár hafi Umhverfis- og ferðamálanefnd ítrekað rætt um að endurskoða þyrfti fyrirkomulag rekstrar á tjaldsvæðinu með það fyrir augum að auka tekjur þess. Hugmyndir nefndarinnar hafa ekki komist til framkvæmda og telur hún það miður.

Á fundi nefndarinnar þann 21. september síðastliðinn var eftirfarandi bókað eftir að lagt var fram minnisblað um rekstur og valkosti um framtíðarrekstur tjaldsvæðisins. „Nefndin leggur til að rekstur tjaldsvæðisins verði áfram á hendi Grindavíkurbæjar. Einnig leggur nefndin til að gjaldskrá og rekstur tjaldsvæðisins verði endurskoðuð."

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Á fundi sínum í síðustu viku kom nefndin meðal annars með þær tillögur að endurskipulagningu tjaldsvæðisins að ráðinn verði sérstakur umsjónarmaður þess tímabundið í sex mánuði yfir mesta ferðamannatímann sem myndi ráða til sín sumarstarfsmenn. Þá vill nefndin að sett verði upp aðgangsstýring á svæðið þannig að gestir verði að hafa samband við starfsmann og ganga frá greiðslu áður en farið er inn á svæðið og að gjaldskráin verði endurskoðuð þannig að opnunartíma verði skipt upp í jaðartíma og háannatíma. Með því móti verði rekstur tjaldsvæðisins gerður líkari því sem tíðkast á tjaldsvæðum í Evrópu og þannig í raun líkari rekstri gistiheimilis.