Fréttir

Uppgangur í Vogum
Í fyrsta áfanga verður 22 lóðum undir íbúðahúsnæði úthlutað.
Föstudagur 9. desember 2016 kl. 06:00

Uppgangur í Vogum

- Íbúum hefur fjölgað um 5,3% á árinu

Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Voga samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að úthluta lóðum til íbúðabygginga og ráðast í gatnagerð. Síðast var lóðum í bæjarfélaginu úthlutað upp úr síðustu aldamótum. Að sögn Ásgeirs Eiríkssonar, bæjarstjóra í Vogum, hafði sveitarfélagið um hríð átt eina lausa lóð til úthlutunar en eftirspurnin lítil. „Nú finnum við á hinn bóginn fyrir auknum áhuga, ekki síst í ljósi þess að húsnæði hér í sveitarfélaginu virðist nú seljast bæði fljótt og vel.“ Á þessu ári hefur íbúum í Vogum fjölgað um 5,3 prósent eða um 61. Í upphafi ársins voru íbúar í Vogum 1.148 eru eru nú 1.209.

Áætlað er að sumar lóðanna sem nú verða lausar til úthlutunar geti hentað fyrir fólk sem vill byggja minna húsnæði en gengur og gerist, til dæmis það sem er að kaupa sína fyrstu eign eða vill minnka við sig. Í deiliskipulagi miðbæjarsvæðis í Vogum er gert ráð fyrir alls 94 nýjum lóðum, þar af eru 40 íbúðir í fimm hæða fjölbýlishúsum. Ásgeir segir að gera megi ráð fyrir að sá hluti deiliskipulagsins eigi eftir að breytast og að fallið verði frá áformum um byggingu fimm hæða húsanna. Í fyrsta áfanga verður 22 lóðum úthlutað.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

[email protected]

Hér má sjá stiklu úr nýjasta þætti Suðurnesjamagasíns Sjónvarps Víkurfrétta