Fréttir

Sprungið loftrör líklega ástæða brunalyktar
Miðvikudagur 12. apríl 2017 kl. 09:42

Sprungið loftrör líklega ástæða brunalyktar

- Íbúar víða í Reykjanesbæ fundu fyrir lyktarmengun frá United Silicon í gærkvöld

Brunalykt frá kísilverksmiðju United Silicon fannst í gærkvöld í nokkrum hverfum Reykjanesbæjar. Loftrör sprakk um klukkan 16:00 í gær og var því slökkt á ofni verksmiðjunnar á meðan viðgerð stóð yfir, að sögn Kristleifs Andréssonar, yfirmanns öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon. Viðgerðinni lauk klukkan 22:00 í gærkvöld. „Í uppkeyrslu ofnsins gæti lykt hafa fylgt,“ segir Kristleifur. Brunalykt frá kísilverksmiðjunni hefur verið tengd við atvik þegar þurft hefur að slökkva á ofninum.

Íbúar Reykjanesbæjar hafa margir hverjir tjáð sig um lykt á samfélagsmiðlum. Þar á meðal eru íbúar við Heiðarbrún, Fífumóa, Háaleiti, Smáratún og Kirkjuveg. Þess má geta að Fífumói er í Njarðvík og því í töluverðri fjarlægð frá verksmiðjunni.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Boðað hefur verið til mótmæla í dag við kísilverksmiðju United Silicon. Fólk er hvatt til að koma saman við verksmiðjuna klukkan 18:00 og láta heyra í bílflautum. Greint er frá mótmælunum á Facebook-síðunni Andstæðingar stóriðju í Helguvík. Í tilkynningu um mótmælin er fólk hvatt til að mæta og láta í sér heyra. „Sýnum að okkur er ekki sama, þetta er komið nóg við erum ekki tilraunadýr!,“ segir þar.