„Við erum á vegferð sem við trúum á“
Mikil tilhlökkun hjá Njarðvíkingum að byrja mótið í Lengjudeildinni í knattspyrnu.
„Loksins getur maður hætt þessum endalausu æfingum og æfingaleikjum og hellt sér út í alvöruna – sem er ástæðan fyrir því að maður er að djöflast í þessu,“ sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson en hann þjálfar knattspyrnulið Njarðvíkur sem hefur leik í Lengjudeild karla um næstu mánaðarmót. Gunnar tók við liðinu um mitt síðasta tímabil þegar fall blasti við Njarðvíkingum en undir hans stjórn bjargaði liðið sér frá falli á ótrúlegan hátt – ekki mátti þó miklu muna því einungis eitt mark skildi að Njarðvík og Selfoss sem féll.
Njarðvík byggir til framtíðar
Hvernig leggst tímabilið í ykkur?
„Mjög vel. Mér finnst þetta búið að vera gríðarlega gott, stórt og erfitt undirbúningstímabil. Við ákváðum að taka allt saman; klúbbinn, leikmennina og staffið, á næsta stig. Auðvitað kostar það blóð, svita og tár og það hafa verið að vera ansi margir langir dagar unnir hjá leikmönnum, starfsfólki og stjórnarmönnum í vetur. Mér finnst við vera á réttri leið og maður finnur að það er mikil tilhlökkun hjá Njarðvíkingum að byrja mótið.“
Það eru búnar að vera miklar breytingar leikmönnum hjá Njarðvík.
„Já, það er búið að vera svolítið mikið um breytingar. Það er alveg rétt. Við ákváðum að slíta samstarfinu við Marc McAusland en hann verður alltaf partur af sögunni hjá Njarðvík. Við ákváðum hins vegar að yngja liðið upp og við erum á vegferð sem við trúum á. Njarðvík mun bara stækka með hverju árinu núna.“
Hverjir hafa bæst í hópinn hjá ykkur?
„Við erum búnir að fá nokkra nýja leikmenn. Við ákváðum að skipta um markmann og fengum Ara Snæ [Friðriksson] frá KR, hann hefur verið með Grindavík, Fylki og fleiri liðum og kemur með reynslu úr efstu deild. Ég tel það mikilvægt í þessari vegferð sem við erum í. Svo erum við búnir að fá búlgarskan hafsent, Slavi Miroslavov Kosov, og þar sem Rafa [Rafael Alexandre Romao Victor] ákvað að fara til Akureyrar vantaði okkur nýjan sóknarmann og fengum króatískan leikmann sem heitir Dominik Radic. Hann lítur virkilega vel út.
Við viljum líka byggja til framtíðar og höfum fengið unga leikmenn. Við viljum leyfa ungum leikmönnum úr Njarðvík að fá að kynnast þessu umhverfi og hjálpa þeim til að verða betri. Þeir eru nokkrir í klúbbnum sem vilja það og þeir eru búnir að standa sig gríðarlega vel. Svo fengum við Amin Cosic, átján ára peyja, frá HK. Eins og ég segi þá erum við að yngja hópinn upp og búa til flotta leikmenn til framtíðar.“
Allir skilja sín hlutverk
Þið viljið væntanlega ekki vera í sama ströggli og í fyrra. Hverjar eru væntingarnar í ár?
„Nei, það er allavega ekki planið. Væntingarnar eru að halda áfram þessu starfi sem við byrjuðum á eftir að ég kom til Njarðvíkur í fyrra. Núna fæ ég náttúrulega heilt tímabil með leikmönnunum mínum og persónulega er ég búinn að vera mjög ánægður með allt saman; leikmennina, staffið og klúbbinn. Við erum búnir að lenda á hindrunum en það er fylgir oftast þegar verið er að gera einhverjar breytingar, það gengur ekki allt upp í fyrstu tilraun en ef maður vinnur markvisst að breytingum er alltaf möguleiki á að gera hlutina betur. Við erum allavega mjög ánægðir með vinnuna í vetur og getum ekki beðið eftir að tímabilið byrji.
Mér finnst við spila flottan fótbolta, nútímafótbolta og allir leikmenn hafa hlutverki að gegna og skilja sín hlutverk. Við sem erum eldri en tvævetur í þessum bransa vitum vel að það skiptir máli að byrja mótið vel til að skapa stemmningu og efla sjálfstraust í liðinu – og það er eitthvað sem við stefnum á að gera.“