Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Tíminn við æfingar hefur tvöfaldast
Anton Ingi telur að Grindavík geti blandað sér í toppbaráttuna í sumar. Mynd úr safni V/JPK
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
laugardaginn 27. apríl 2024 kl. 06:05

Tíminn við æfingar hefur tvöfaldast

Tímabilið leggst mjög vel í okkur. Við erum búin að æfa eins vel og hægt er, ég held að við séum búin að æfa á átta mismunandi fótboltasvæðum síðustu sex vikur þannig að það er fjölbreytt, en við erum full bjartsýni,“ segir Anton Ingi Rúnarsson, þjálfari kvennaliðs Grindavíkur, í aðdraganda Lengjudeildarinnar.

Liðið á fínu róli

Grindvíkingar léku í fyrstu umferð Mjólkurbikars kvenna um síðustu helgi og þurftu ekki að hafa mikið fyrir sigri á Smára en leikurinn endaði 9:0 þar sem Dröfn Einarsdóttir skoraði fimm mörk.

„Við stóðum okkur líka vel Lengjubikarnum, kláruðum það mót í öðru sæti, svo ég held að liðið sé á fínu róli,“ segir Anton Ingi.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það eru komnir nýir leikmenn og Dröfn komin aftur heim.

„Já, Dröfn er komin til baka og þær Bella [Ísabel Jasmín Almarsdóttir] og Unnur [Stefánsdóttir] taka skóna af hillunni og dusta rykið af þeim. Það er mikill styrkur í því að fá þær til baka.

Dröfn Einarsdóttir skoraði fimm marka Grindavíkur í sigri á Smára. Hún hefur snúið heim til Grindavíkur og styrkir liðið verulega. Mynd/Petra Rós Ólafsdóttir

Við höfum fengið þrjá erlenda leikmenn til okkar en frá nóvember var þetta svolítið haltu mér slepptu mér, átti að taka útlendinga eða átti ekki að taka útlendinga. Svo duttum við niður á íbúð í bænum og þá var hægt að fara í þau mál. Við vorum í veseni í markinu, okkur vantaði markmann og erfitt að fá íslenskan markmann. Við fengum svo Katelyn Kellogg, bandarískan markvörð sem lék í fyrra með Fjölni í annarri deild, hún hefur verið að koma mjög fínt inn í þetta hjá okkur.“

Eru útlensku stelpurnar sem voru með ykkur í fyrra þá ekki áfram?

„Nei, engin af þeim er með okkur. Tvíburarnir fóru til Kýpur og við athugum stöðuna á þeim í vetur en það var bara pakkadíll í boði, annað hvort þær báðar eða hvorug. Það passaði ekki alveg inn í myndina hjá okkur þegar við megum bara vera með þrjá leikmenn utan Evrópu.“

Hverjar eru væntingarnar hjá ykkur í sumar?

„Þær eru alveg ágætar, við stefnum eins hátt og mögulegt er og ég tel okkur alveg vera með lið til að vera í þeim pakka sem mun berjast um að fara upp. Ég held bara að deildin í ár verði meira að segja jafnari en hún var á síðasta tímabili. Við vorum í öðru sæti langt inn í mótið í fyrra og stefnum á að halda því út mótið í ár.“

Flakk á milli valla að valda meiðslum

Þetta er auðvitað búið að vera gríðarlega erfitt hjá ykkur í vetur en þið bara tvíeflist við það, eða hvað?

„Já, eins og maður segir þá er þetta búið að vera eins og helvíti ef maður talar íslensku. Allt liðið hefur staðið í þessu, allar íslensku stelpurnar eru heimastelpur fyrir utan Mist [Smáradóttur] sem spilaði með okkur í fyrra og kemur á láni frá Stjörnunni. Þær hafa allar verið í sama pakka, að flytja og græja og pakka. Einhverjar eru í Keflavík og ein á Selfossi svo það tekur tíma að komast á æfingar í staðinn fyrir að hafa áður búið í Grindavík og getað æft í Hópinu. Núna þarftu að gefa þér töluvert lengri tíma fyrir og eftir æfingar til að koma þér á milli staða. Það er það sem hefur verið erfiðast í þessu, að tíminn tvöfaldast og auðvitað að vita ekkert hvar maður æfir frá degi til dag. Við erum með tvo fasta tíma á Álftanesi, á miðvikudögum og fimmtudögum, og við höfum oftast verið að spila á þeim tímum.“

Hvernig leggst í ykkur að spila í Safamýri?

„Það er bara flott. Það eru fínar aðstæður þar og völlurinn mjög skjólsæll, það er eitthvað sem við erum kannski ekkert svakalega vön hérna á Suðurnesjum. Það er mesta breytingin í þessu en aðstaðan í húsinu er fín og völlurinn er fínn. Vonandi náum við eitthvað að æfa á gervigrasinu í stað þess að flakka á milli grass og gervigrass, það er það sem er að há okkur þessa dagana. Við erum búnar að spila á einhverjum sjö, átta mismunandi völlum síðustu sex vikur. Það er kannski að orsaka meiri meiðsli en við höfum verið vön að eiga við á þessum árstíma. Það er bara vegna þess að gervigrasvellirnir eru með mismunandi undirlag. Það sama á við í sumar, ef við verðum að flakka á milli grass og gervigrass þá mun það bara auka líkur á meiðslum sem eru óþarfi.

Annars er Safamýrin mjög góð. Það hreyfir ekki vind þarna og völlurinn er fínn gervigrasvöllur. Heima erum við vön að spila með þessa gríðarlega stóru stúku og þá dreifist fólk um hana en stúkan í Safamýri er hæfilega lítil sem ég held að muni skapa betri stemmningu á leikjum í sumar,“ segir Anton Ingi sem fer vongóður inn í deildarkeppnina.