JS Campers
JS Campers

Fréttir

Ólíklegt að undirskriftir hafi áhrif
Mynd úr skýrslu Mannvits um kísilver Thorsil í Helguvík. Gangi áætlanir eftir tekur það til starfa árið 2018.
Föstudagur 9. desember 2016 kl. 06:00

Ólíklegt að undirskriftir hafi áhrif

- Fulltrúi Ust segir forsendur fyrir starfsleyfi Thorsil ekki hafa breyst nægilega mikið til að hverfa frá veitingu þess

Tæplega 3.500 manns hafa skrifað undir áskorun til Reykjanesbæjar og Umhverfisstofnunar um að heimila ekki byggingu á kísilveri Thorsil í Helguvík. Fram kom í máli Sigríðar Kristjánsdóttur, teymisstjóra eftirlitsteymis Umhverfsstofnunar, í viðtali hjá Sjónvarpi Víkurfrétta að stofnunin gefi sér ákveðnar forsendur fyrir veitingu starfsleyfis til kísilversins og að þær hafi ekki breyst mikið. Því sé ekki líklegt að starfsleyfið verði ekki gefið út. Að sögn Kjartans Más Magnússonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, kom fram vilji allra framboða sem sitja í bæjarstjórn til þess að ljúka þeim verkefnum sem hafin voru í Helguvík. „Ég hef ekki heyrt af áherslubreytingu varðandi það hjá kjörnum fulltrúum. Við embættismennirnir vinnum við gefin loforð.“ Hann sagði erfitt að segja hvort þúsundir undirskrifta hafi áhrif á kjörna fulltrúa.


Breyttir tímar
Aðspurður um lærdóm af uppbyggingu stóriðju í Helguvík, sem hluti íbúa Reykjanesbæjar er ósáttur við, þá segir Kjartan Már að hafa verði í huga það ástand sem var á Suðurnesjum þegar ákveðið var að ráðast í byggingu á verksmiðjunum í Helguvík. „Atvinnuleysi var í sögulegu hámarki og erfið staða víðast hvar og Helguvíkurhöfn illa nýtt. Þá var þetta töfralausnin og frekar tvær verksmiðjur en ein. Núna eru breyttir tímar og allir hafa vinnu og mikil tekjuaukning er alls staðar. Ef menn hefðu séð það fyrir þá getur vel verið að ákvarðanir hefðu orðið aðrar.“

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Haldinn verður íbúafundur vegna mengunar frá kísilveri United Silicon í Helguvík næsta miðvikudag, 14. desember, klukkan 20:00 í Stapa. Fulltrúi frá bæjarstjórn Reykjanesbæjar, United Silicon, Orkurannsóknum Keilis og Umhverfisstofnun munu flytja framsögu á fundinum.

Sjónvarpsviðtalið í heild sinni má sjá hér.

Hér má sjá stiklu úr nýjasta þætti Suðurnesjamagasíns Sjónvarps Víkurfrétta