Hannes Hafstein dró fiskibát til Keflavíkurhafnar
Í gærkvöldi barst aðstoðarbeiðni frá fiskibát sem þá var staddur við Múlahraun á Faxaflóa, vestur af Akranesi. Skipverjar höfðu þá orðið fyrir því óhappi að fá veiðarfæri í skrúfuna og óskuðu eftir drætti til lands.
Björgunarbátarnir Sjöfn og Stefnir frá Reykjavík og Kópavogi voru kallaðir til aðstoðar og héldu úr höfn um 18 í gærkvöldi. Klukkustund síðar voru bátarnir komnir að fiskibátnum og tók Sjöfn hann í tog en Stefnir var til aðstoðar.
Veður var þokkalegt en um eins og hálfs metra ölduhæð. Ekkert amaði að mannskap um borð í fiskibátnum.
Eftir að búið var að koma taug á milli báta óskaði skipstjóri fiskibátsins eftir að báturinn yrði dreginn til hafnar í Keflavík þar sem talsverður afli var um borð sem þyrfti að landa þar. Þar sem Stefnir og Sjöfn eru minni björgunarbátar og löng sigling fyrir höndum var áhöfn björgunarskipsins Hannesar Hafstein í Sandgerði kölluð út til að sigla til móts við bátana og taka við drætti. Hannes fór úr höfn upp úr klukkan 20:30 og var kominn að bátunum um klukkustund síðar. Þeir höfðu þá verið á um fjögurra hnúta hraða með fiskiskipið í togi. Hannes tók við drætti og hélt áfram til Keflavíkur en Sjöfn og Stefnir héldu áleiðis til Reykjavíkur þar sem bátarnir tóku eldsneyti og voru gerðir klárir.
Upp úr ellefu í gærkvöldi kom Hannes Hafstein til hafnar í Keflavík með fiskibátinn. Einum og hálfum tíma síðar var Hannes kominn til hafnar í Sandgerði og gerður klár til útkalls á ný.
Meðfylgjandi eru nokkrar ljósmyndir frá aðgerðum gærkvöldsins. (Slysavarnarfélagið Landsbjörg)